Körfubolti: FSu lagði Hött á lokasekúndunni

hottur fsu 1Höttur tók á móti liði FSu í fyrsta heimaleik liðsins í vetur. Leikurinn var æsispennandi og úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndunni.
Liðin skiptust á um forystuna í fyrsta leikhluta og ljóst var að bæði lið hafa á að skipa ágætlega breiðum leikmannahópi því enginn einn skaraði fram í byrjun en stigaskorið dreifðist á liðsmenn. FSu var þó heldur með frumkvæðið og leiddi eftir leikhlutann 18-22.

Svipað var uppi á tengingnum í öðrum leikhluta og skiptust liðin nokkuð á að sýna fín tilþrif. Staðan í hálfleik var 43-44. Munaði þar mest um fínan kafla undir lok leikhlutans þar sem Eysteinn Bjarni Ævarsson, besti leikmaður Hattar í dag, sýndi góða takta hvað eftir annað.

Hattarmenn komu betur stemmdir til síðari hálfleiks og tóku frumkvæðið af gestunum. Að loknum þriðja leikhluta leiddi liðið 62-58 og í byrjun fjórða leikhluta leit allt út fyrir að Höttur myndi klára leikinn.

En leikmenn FSu sýndu úr hverju þeir eru gerðir með því að breyta stöðunni úr 70-58 þegar 8:30 voru eftir á klukkunni í 85-85 þegar 22 sekúndur voru eftir. Í lokasókninni lét síðan Daði Berg Grétarsson klukkuna ganga niður og kom síðan boltanum á Ara Gylfason sem kom boltanum í körfuna og fékk villu að auki þegar 1 sekúnda stóð eftir á klukkunni.

Vítaskotið fór ekki niður en enginn tími var fyrir heimamenn að gera neitt og FSu fagnaði sínum fyrsta sigri á tímabilinu, en Höttur hefur nú tapað báðum sínum leikjum til þessa.

Erik Olson þjálfari FSu var eðlilega kampakátur í leikslok. „Ég verð aðeins að fá að ná andanum, þetta var frábært. Ég er gríðarlega stoltur af mínu liði og þessum strákum að ná að vinna sig aftur inn í leikinn á móti góðu liði á erfiðum útivelli og klára þessar sóknir í lokin. Ef ein einasta þeirra hefði klikkað hefðum við ekki unnið þennan leik, svo ég er mjög ánægður.“

Viðar Örn Hafsteinsson þjálfari Hattar var hins vegar ómyrkur í máli. „Við erum bara ekki eins góðir og við höldum. Við erum búnir að fara yfir ákveðin atriði dag eftir dag og síðan þegar á hólminn er komið þá eru menn ekki að gera það sem er lagt upp með. Við erum bara ekki nógu góðir til að berjast um sigurinn í þessari deild miðað við þetta.“

Í liði heimamanna skoraði Frisco Sandidge 22 stig og tók 11 fráköst, en hefði mátt vera stöðugri í sínu framlagi. Héraðshöfðinginn Eysteinn Bjarni Ævarsson var hins vegar sem fyrr segir bestur þeirra í kvöld og skoraði 19 stig. Austin Bracey var með 16 stig og 6 stoðsendingar.

Af gestunum var það Collin Pryor sem var jafnbestur, en miðherjinn var með 22 stig og 20 fráköst, þar af 7 í sókninni. Ari Gylfason og Hlynur Hreinsson áttu einnig góðan leik, sérstaklega undir lokin, og voru með 21 og 18 stig.

hottur fsu 2
hottur fsu 7
hottur fsu 5
hottur fsu 6hottur fsu 3hottur fsu 4

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar