95 ár á milli skíðafélaga
Rúmlega níutíu ára aldursmunur var á tveimur skíðafélögum sem skemmtu sér saman í Oddsskarði á laugardag. Mikið hefur verið um að vera á austfirskum skíðasvæðum að undanförnu.
Sá eldri er Stefán Þorleifsson fæddur árið 1916 en sá yngri Viktor Nói Stefánsson fæddur 2011. Á þeim er 95 ára aldursmunur. Þeir voru meðal þeirra sem nutu veðurblíðunnar í Oddsskarði á laugardag og renndu sér saman.
Líflegt hefur verið í austfirskum skíðabrekkum að undanförnu. Meðal þeirra sem æfa í Oddsskarði hefur brettaiðkun sérstaklega aukist.
Nýverið var haldið svokallað Björnsmót í Stafdal en þangað mættu yfir 100 skíðaiðkendur af Austur- og Norðurlandi. Þar var staðið fyrir fjölskyldukvöldi á föstudag sem tókst vel að sögn skipuleggjenda. Þar verður boðið upp á byrjendanámskeið um næstu helgi.
Austfirskt skíðafólk stóð sig með ágætum á bikarmóti á skíðum sem fram fór í Hlíðarfjalli við Akureyri. Guðsteinn Ari Hallgrímsson úr Skíðafélaginu Stafdal, náði öðru sæti í svigi fimmtán ára og Þorvaldur Marteinn Jónsson varð í þriðja sæti í stórsvigi 14 ára.
Sú breyting varð nýverið á að keppendur félaganna keppa undir merkjum UÍA þegar farið er út fyrir fjórðunginn.
Stefán og Viktor Nói í Oddsskarði um helgina. Mynd: Jóhann Tryggvason