Blak: Sigrar á Þrótti Reykjavík boða gott fyrir framhaldið

blak throttur 26102013 1 webKarlalið Þróttar vann fyrri leik sinn en tapaði þeim seinni gegn Þrótti Reykjavík í Mikasa-deild karla í blaki um helgina. Kvennaliðið vann sinn leik örugglega en leikirnir fóru allir fram í Neskaupstað. Þjálfarar bæði karla- og kvennaliðsins segja leikina gefa góð fyrirheit um það sem framundan er.

Karlaliðin mættust fyrst á föstudagskvöld en þá hafði Þróttur Neskaupstað betur 3-2 í hrinum; 23-25, 25-17, 25-20, 13-25 og 15-8. Valgeir Valgeirsson var stigahæstur með 17 stig og Matthías Haraldsson skoraði 15.

Reykjavíkur liðið hefndi ófaranna í seinni leiknum á laugardag. Norðfjarðarliðið vann fyrstu tvær hrinurnar 25-21 og 25-22 en gestirnir svöruðu fyrir sig 24-26, 25-27 og 13-15. Valgeir var stigahæstur með 25 stig.

„Það eru tveir stórskemmtilegir og spennandi leikir að baki eftir helgina,“ segir Hlöðver Hlöðversson, þjálfari karlaliðsins. „Áhorfendur studdu sem fyrr dyggilega við bakið á okkur og það skilaði okkur í fluggírinn í oddahrinunni á föstudag.“

Norðfjarðarliðið var samt hálf vængbrotið eftir tvo leiki við Aftureldingu fyrr í mánuðinum þar sem tveir leikmenn meiddust. Þeir eiga samt að vera klárir fyrir næstu leiki sem verða gegn Stjörnunni um miðjan nóvember í Neskaupstað.

„Það er útlit fyrir að næstu viðureignir við Stjörnumenn verði skemmtilegar og afar mikilvægar fyrir bæði liðin í toppbaráttunni,“ segir Hlöðver en Þróttur er í öðru sæti deildarinnar.

Stelpurnar eiga mikið inni

Kvennaliðin mættust á laugardaginn og í þeim leik hafði heimaliðið undirtökin og vann 3-0; 25-14, 25-13, 25-16. Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir var stigahæst með sextán stig.

„Við stjórnum leiknum nokkurn vegin allan tímann, þó fyrri hluti hrinanna hafi verið nokkuð jafn þá sigum við alltaf framúr um miðja hrinu,“ segir Matthías Haraldsson, þjálfari.

„Móttakan var góð sem er traustvekjandi og boðar gott um framhaldið. Hún er það sem ég hafði mestar áhyggjur af fyrir leiktímabilið, þar sem Lauren (Laqurre) og Hulda Elma (Eysteinsdóttir) spiluðu stórt hlutverk í móttöku á síðustu leiktíð og skiluðu því gríðarlega vel ásamt Bobbu (Þorbjörgu Ólöfu Jónsdóttur) frelsingja að sjálfsögðu. Einnig voru uppgjafirnar beittar og sóknarspilið nokkuð gott.“

Helgin var samt nýtt í æfingar fyrir Norðurlandamótið um næstu helgi. Liðið æfði fjórum sinnum um helgina fyrir utan leikinn. „Ég tel liðið eiga mikið inni ennþá. Ef það eiga að vinnast hrinur eða leikir í Danmörku þarf spilið að vera beittara á öllum vígstöðvum.“

Myndir: Sigríður Þrúður Þórarinsdóttir

blak throttur 26102013 2 webblak throttur 26102013 3 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.