Bikarmeistararnir í körfu koma í heimsókn: Þýðir ekki að mæta með rækjusamlokur á bekkinn

karfa hottur breidablik 28022013 0005 webHöttur tekur á móti ríkjandi meisturum Stjörnunnar í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik annað kvöld. Þjálfari Hattar segir bikarkeppnina litlu liðanna til að koma á óvart og hvetur áhorfendur til að mæta snemma í íþróttahúsið til að styðja við liðið.

„Stjarnan eru með eitt besta lið landsins og við klárlega litla liðið en það þýðir ekkert fyrir okkur að mæta með rækjusamlokur á bekkinn og ætla bara að horfa á," segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Höttur er í fyrstu deild en Stjarnan í úrvalsdeild og hefur verið eitt sterkasta lið landsins undanfarin ár undir stjórn Teits Örlygssonar.

„Okkur líst vel á að mæta Stjörnunni. Að fá flott úrvalsdeildarlið í heimsókn í bikarnum skiptir félagið, samfélagið og krakkana sem æfa körfu miklu máli.

Við þurfum að mæta einbeittir og njóta þess að spila, svo sjáum við hver niðurstaðan verður. Það er nú það skemmtilega við bikarinn að þetta er vettvangur fyrir litlu liðin til að koma á óvart."

Höttur vann um helgina sinn fyrsta leik í deildinni þegar liðið lagði Fjölni í Grafarvogi í dramatískum leik í Dalshúsum. Slíkt ætli að efla sjálfstraust leikmanna Hattar eftir að hafa tapað tveimur fyrstu leikjunum á lokamínútunum.

„Það er alltaf mikilvægt að vinna leiki. Síðasti leikur í deild var góður hjá okkur og við ætlum að halda áfram að taka skref í rétta átt og verða betri. Annars skiptir gengi liða í deild engu máli þegar það er komið í bikarinn."

Leikurinn sjálfur hefst klukkan 18:30 á morgun í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Hattarmenn ætla að mæta snemma í húsið og grilla pylsur ofan í gesti þar til klukkan 18:20.

„Við hvetjum fólk sleppa því að elda og koma snemma í húsið með fjölskylduna og fá sér pylsur," segir Viðar að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar