Teitur Örlygs: Ofboðslega hrifinn af ungu strákunum hjá Hetti
Teitur Örlygsson, þjálfari bikarmeistara Stjörnunnar í körfuknattleik, hrósaði leikmönnum Hattar fyrir góða baráttu í leik liðanna í 32ja liða úrslitum bikarkeppninnar á Egilsstöðum í kvöld. Hann var ánægður með innkomu nýja Kanans í sitt lið en fannst aðrir leikmenn slaka heldur mikið á.„Við erum deild ofar og þannig séð er því á þessi leikur að vera skyldusigur fyrir okkur. Við vissum samt að það gæti verið erfitt að spila við fyrstu deildar lið á útivelli og mættum þannig í leikinn," sagði Teitur í samtali við Austurfrétt eftir 59-86 sigur Stjörnunnar í kvöld.
„Höttur er með það gott lið og ef við hefðum ekki mætt tilbúnir til leiksins þá hefðu þeir pottþétt leitt leikinn í hálfleik. Ég er ofboðslega hrifinn af ungu strákunum hjá þeim. Þeir lögðu sig fram og skoruðu gullfallegar körfur."
Athygli körfuknattleiksáhugamanna í kvöld beindist þó einkum að Bandaríkjamanninum Matthew Hairston sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna í kvöld. Stjörnuliðið virtist hálf vængbrotið þær fáu mínútur sem hann var ekki inn á. Teitur virtist ánægður með hans framlag.
„Hann er ofboðslegur íþróttamaður og stóð sig mjög vel. Það var frábært fyrir hann að fá þennan leik því hann er ekki í neinni æfingu. Það lagast. Hann spilaði mjög mikið og var orðinn mjög þreyttur. Hann tók hins vegar aðra út úr leiknum því við vorum of mikið að horfa á hann."
Stjörnumenn mættu með átta leikmenn austur og þeim fækkaði um tvo strax í fyrsta leikhluta því Sæmundur Valdimarsson og Fannar Freyr mæddust eftir að hafa spilað tæpar tvær mínútur hvor og komu ekki meira við sögu.
„Það voru leikmenn í hópnum í kvöld sem fengu að spila fleiri mínútur en oft áður og það var gaman. Það slæma er að Sæmi og Fannar meiðast báðir og við eigum erfiðan leik gegn KR."
Teitur gat ekki metið meiðsli þeirra til fulls strax eftir leik. „Við sjáum hvernig þeir verða á morgun en hvorugur treysti sér til að halda áfram."