„Ætli það sé ekki æsihneigðin sem rekur mig áfram“

Elva Hjálmarsdóttir frá Vopnafirði hefur óhrædd við að fara nýjar leiðir í lífinu. Hún var komin yfir tvítugt þegar hún byrjaði að æfa skauta en varð síðar landsliðskona í íshokkí og nú alþjóðlegur dómari. Hún er ríkjandi meistari í þolakstri á torfæruhjólum og er nýorðin slökkviliðsmaður.

Elva er fædd og uppalin á Vopnafirði og bjó í þorpinu þar til hún var á efsta ári í grunnskóla. Þá fluttist fjölskyldan að Ljótsstöðum í um tíu kílómetra fjarlægð. „Þá fékk ég skellinöðru til að komast sjálf á milli sveitarinnar og þorpsins,“ segir Elva og viðurkennir að þar hafi áhuginn á mótorsporti kannski fyrst byrjað. Það var hins vegar ekki fyrr en löngu síðar að hún hóf að stunda sportið af alvöru.

Að lokinni grunnskólagöngu fluttist Elva til Akureyrar þar sem hún gekk í MA. Má segja að hún hafi þá að mestu verið flutt frá Vopnafirði en hún kom þó heim á sumrin og spilaði, auk annars, fótbolta með meistaraflokki Einherja. „Íþróttir hafa alltaf legið vel fyrir mér. Ég hafði mikinn áhuga á fótbolta.

Ég var eina stelpan að æfa svo ég æfði alltaf með strákunum. Það hefur eflaust mótað mig svolítið sem íþróttakonu, að þurfa að hafa fyrir mínu í baráttu við líkamlega sterkari stráka. Ég byrjaði líka mjög ung að spila með meistaraflokki kvenna, þegar ég var enn í grunnskóla og spilaði með þeim töluvert lengi.“

Elva spilaði einnig með Hetti á Egilsstöðum en þar bjó hún um árs skeið eftir að hún kláraði stúdentsnám. Svo fjaraði undan fótboltanum hjá henni og hún sneri sér að öðrum íþróttum.

Valin í landsliðið tveimur árum eftir að hún steig fyrst á ísinn


Elva fluttist suður og nam sálfræði við Háskóla Íslands. Á þeim tíma byrjaði hún að spila íshokkí með Skautafélaginu Birninum. Hún segist ekkert hafa kunnað að skauta áður en hún fór á ísinn, 22ja ára gömul, en samstarfskona hennar var að æfa, varð vör við áhuga Elvu og hvatti hana til að koma.

Henni var vel tekið þannig hún hélt áfram. Hún spilaði sem varnamaður, segir það hafa orðið því hún byrjaði svo seint að æfa að kylfutæknina vantaði. „Það sem ég hafði var grunnur minn úr íþróttum, kraftur og skap. Þetta er svo sem lítið sport, en ég var komin í landsliðið tveimur árum seinna.“

Þurfti gæslu lífvarða


Elva spilaði, með hléum, með Birninum fram til 2017. Tveimur árum síðar byrjaði hún að dæma, fékk alþjóðleg réttindi, dæmdi í neðri deildum heimsmeistaramótsins í Serbíu árið 2022 og síðan á alþjóðlegu móti í Svíþjóð sama ár, þar sem hún fékk úrslitaleikinn. Á síðasta ári dæmdi Elva svo á heimsmeistaramóti kvenna í Rúmeníu, í efri deild en árið 2022.

„Á þessu móti lenti ég í mjög skrýtnum leik. Það var lokaleikurinn, á milli Rúmena og Búlgara, og frá upphafi var ljóst að fókusinn var ekki á réttum stað. Þegar leiknum lauk brutust út hópslagsmál með hætti sem aldrei hefur sést áður á heimsmeistaramóti, að því er mér er sagt. Einn þjálfaranna hrækti meðal annars að mér og þetta var allt hið ruglaðasta.

Það þurftu lífverðir að standa vörð fyrir utan klefann okkar í tvo tíma eftir leikinn. Þjálfarinn fékk fimm leikja bann og flestir leikmenn liðanna þriggja leikja bann, sem eru mjög harðar refsingar í íshokkí heiminum. Þetta var mikill lærdómur og maður verður ekki hræddur við neitt eftir að hafa upplifað svona aðstæður.“

Bensínlaus á lokahring


Þó Elva hafi eignast skellinöðru sextán ára liðu drjúgt mörg ár þar til hún byrjaði að hjóla af alvöru. Hún tók bílprófið um leið og hún mátti, 17 ára, og eftir það fór hún ferða sinna á bíl, skellinöðrunnar var ekki lengur þörf. Fyrsta torfæruhjólið keypti hún ekki fyrr en árið 2017.

Árið eftir keppti Elva í sinni fyrstu keppni, á Klaustri. Það er löng þolaksturskeppni sem allir geta tekið þátt í án þess að hafa mikla reynslu. Ekki fer miklum sögum af árangrinum í þeirri keppni en árið eftir, 2019, keppti Elva líka á Klaustri.

„Það er skondin saga úr þeirri keppni. Ég var sem sagt búin að ná fyrsta sæti í kvennaflokknum þegar einn hringur var eftir. Óli, maðurinn minn var búinn að láta mig vita að ég þyrfti að öllum líkindum að taka bensín til að geta klárað keppnina svo ég kom inn í pittinn.

Óli var að labba með bensínbrúsann í áttina til mín en ég var svo spennt og tryllt yfir því að vera orðin fremst að ég leit á bensíntankinn á hjólinu og hugsaði með mér: Ég kemst lokahringinn, og æddi af stað. En auðvitað endaði ég bensínlaus. Það var hræðilega niðurlægjandi, mér var skutlað til baka á fjórhjóli og Óli hélt að ég væri stórslösuð þegar var komið með mig. En það var bara stoltið sem var sært. En ég lærði af reynslunni og hef aldrei síðar orðið bensínlaus.“

Elva tók síðan þátt í Íslandsmeistara mótaröðinni í þolakstri í fyrsta skipti árið 2020 og endaði sem Íslandsmeistari. Þann leik endurtók hún í fyrra sumar og var á síðasta ári valin akstursíþróttakona ársins hjá MSÍ, Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasambandi Íslands.

Gamli nýliðinn


Elva lauk námi í sálfræði vorið 2009 og vann þar til í vetur að málefnum fatlaðs fólks. Síðasta sumar ákvað hún að söðla um og sækja um inntöku í Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Í lok september fór hún í hlaupapróf þar sem hlaupa þurfti þrjá kílómetra á innan við 13,5 mínútum. Hún hafði náð vegalengdinni á 15 mínútum og hafði því samband við hlaupaþjálfara.

Úr varð að Arnar Pétursson, margfaldur Íslandsmeistari í langhlaupum, bjó til æfingaáætlun sem skilaði tilsettum árangri. Elva varð eina konan af þeim fimmtán sem fóru í prófið sem stóðst það. „Ég hljóp á 13 mínútum og 20 sekúndum. Ég hljóp nákvæmlega á þeim hraða sem ég mátti hlaupa á allan tímann nema síðustu hundrað metrana þegar ég tók lokasprett.“

Elva er 38 ára í ár, sem telst óvenju hár aldur fyrir nýliða í slökkviliðinu. „Þau hjá slökkviliðinu spurðu mig einmitt út í þetta, þau sáu ferilskrána mína og eiginlega spurðu í forundran hvað ég væri að gera hjá þeim. Ég er mjög upplýst um að þetta er skrítin ákvörðun, en ég held að ef ég hefði ekki ákveðið þetta þá hefði ég alltaf séð eftir því, alveg fram á dánarbeðið.“

Hún segist finna mikinn stuðning heima fyrir. Hún þekki aðeins til slökkviliðs þar sem faðir hennar var um árabil slökkviliðsstjóri á Vopnafirði. Hún þakkar líka manni sínum, Ólafi Tryggvasyni, stuðninginn: „Þetta hangir allt á því að ég á besta mann í heimi. Hann er ótrúlegur og ég gæti þetta alls ekki nema með hans mikla stuðningi.“

Að elta draumana


Elva segist heilshugar mæla með því að fólk setjist niður og velti því fyrir sér hvað gefi því ánægju í lífinu, hverjir séu draumar þess, og óttast ekki að eltast við þá. „Það er oft auðveldara að sitja í aðstæðum og gera ekkert þó svo að hugurinn leiti annað. Það er ákveðin áhætta að taka af skarið en á sama tíma stendur maður með sjálfum sér. Það er líka alltaf hægt að snúa við og fara til baka í það sem maður þekkir, ef þetta nýja stendur ekki undir væntingum.“

Síðan er það persónuleikinn. „Í meiraprófinu er fjallað um umferðarsálfræði, svo sem persónuleika ökumanna og vísbendingar um æsihneigð. Vísbendingar um hana eru starfsval á borð við slökkvistörf, áhugi á akstursíþróttum og íshokkí. Ætli það sé ekki æsihneigðin sem rekur mig áfram.“

Mynd: Aðsend

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.