„Ætlum að hrista ærlega upp í íslenskum körfubolta á vordögum“

Þjálfari körfuknattleiksliðs Hattar segir liðið stefna á að komast í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í vor. Liðið tekur á móti Grindavík í fyrsta leik Íslandsmótsins í kvöld.

„Við erum spenntir fyrir tímabilinu og fyrsta leik. Staðan á hópnum er þokkaleg. Matej (Karlovic) er í smá meiðslum en aðrir eru klárir,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Höttur hefur í kvöld keppni í úrvalsdeildinni. Liðið spilar þar nú í þriðja sinn á sex tímabilunum. Liðið hefur fallið í bæði fyrri skiptin og er spáð næst neðsta sætinu að þessu sinni. Viðar Örn vill breyta því.

„Við ætlum að berjast um sæti í úrslitakeppninni, komast í hana og hrista svo ærlega upp í íslenskum körfubolta á vordögum þegar við endurtökum þegar Davíð sigraði Golíat,“ segir Viðar.

Sigurður í góðu lagi

Þrír nýir leikmenn eru í Hattarliðinu í kvöld. Augu flestra beinast að miðherjanum Sigurði Gunnari Þorsteinssyni sem kemur úr ÍR. Hann sleit krossbönd í fyrsta leik fyrir ári en Viðar segir að hann sé klár í kvöld.

„Hnéð er í góðu lagi og hefur ekkert plagað hann á undirbúningstímabilinu. Það getur samt tekið tíma að komast í gírinn þegar menn hafa verið frá í heilt ár.“

Þá hefur félagið fengið bandaríska bakvörðinn Shavar Newkirk og spænska framherjann Juan Luis. „Shavar er leikstjórnandi, hann er mjög fljótur og getur brotið upp leiki fyrir okkur. Eins og staðan er núna þá verður Juan Luis frekar í aukahlutverki. Hann er framherji sem við notum líka sem miðherja og sem slíkur verður hann varamaður fyrir Sigga. Hann er mikill baráttuhundur, hörku varnarmaður og góður frákastari.“

Kynslóðaskipti í Grindavík

Grindavík hefur löngum verið eitt sterkasta körfuknattleikslið landsins en gengur í gegnum kynslóðaskipti um þessar mundir. Liðið fékk til sín Bandaríkjamanninn Eric Wise, sem spilaði með liðinu 2015, í síðustu eftir að í ljós kom að Bradley Conley, sem áður hafði verið samið við kæmist ekki. Þá hefur aðstoðarþjálfarinn Þorleifur Ólafsson dregið fram skóna á ný. Þá fékk það til sín eistneska miðherjann Joonas Jarvelainen.

„Grindavík er með vel mannað lið sem hefur reyndar dregið á flot eldri menn sem hafa verið í dvala. Það er með mjög góða bakverði, Sigtryggur Arnar Björnsson og Dagur Kár Jónsson eru trúlega stærsti nöfnin, Ólafur Ólafsson á að baki landsleiki og svo er Kristinn Pálsson kominn frá Njarðvík. Joonas er líka góður sóknarmaður.

Grindavíkurliðið er vel mannað eins og öll hin liðin í deildinni en þetta eru samt bara nöfn á blaði. Það er okkar að koma og sýna hvað við getum og það ætlum við að gera í vetur.“

Ekki fleiri en 200 áhorfendur

Hámarksfjöldi áhorfenda í kvöld er 200 manns og eru börn þar með talin. Körfuknattleiksdeild Hattar hefur látið þau boð út ganga að foreldrar komi ekki með börn á leikinn sem ekki hafi áhuga á íþróttinni til að tryggja að sem flestir sem vilji virkilega fylgjast með leiknum komist að.

„Við reiknum með að það verði orðið fullt eitthvað fyrir leik og höfum beint þessum tilmælum til fólks. Við setjum stuðningsmannaklúbbinn í forgang. Vonandi þurfum við ekki að vísa neinum frá en við getum bara tekið á móti 200 manns. Eftir þeim reglum verður farið.“

Leikurinn hefst klukkan 18:30 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport auk textalýsingar á Vísi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.