Ævintýri að fara um Austurland og lesa fyrir börn og fullorðna

Kolfinnubækur Hrannar Reynisdóttur frá Eskifirði hafa notið töluverðra vinsælda en önnur bókin í bókaflokknum er nýkomin út. Hrönn er í hópi rithöfunda sem ferðast um Austurland um helgina og lesa upp úr bókum sínum.

„Þetta er bara gaman. Það ævintýri að fara um og lesa um fyrir krakka hér og þar og þá fullorðnu líka,“ segir Hrönn.

Hún er meðal þeirra sem eru í árlegri rithöfundalest sem ferðast um Austurland. Auk hennar verða austfirska verðlaunaskáldið Jónas Reynir Gunnarsson sem les úr skáldsögunni Millilendingu, Valur Gunnarsson les úr bókinni Örninn og fálkinn, Friðgeir Einarsson les úr skáldsögunni um Formann húsfélagsins.

Að auki verða með í för rithöfundar frá austfirska forlaginu Bókstaf og nokkrir heimahöfundar á hverjum stað. Bókstafur er einmitt forlag Hrannar sem gefur út bókina „Nei, nú ertu að spauga Kolfinna.“

Með fylgir hún eftir bókinni „Ert‘ ekki að djóka Kolfinna,“ sem kom út í fyrra. „Þegar við tókum saman þær bækur sem eftir voru í landinu eftir jólin í fyrra voru ekki nema 20 talsins. Það sem eftir var er núna næstum uppselt.“

Bækurnar gerast báðar á Eskifirði, þar sem Hrönn býr, en þrátt fyrir nafnið eru þær ekki um sömu Kolfinnuna. Í fyrra var bókin um Kolfinnu sem send er til dvalar hjá ömmu sinnar og nöfnu austur á Eskifirði. Nú segir frá unglingsárum ömmunnar í bænum á síldarárunum.

Hrönn segist hafa byrjað á bókinni í janúar eftir velgengi fyrri bókarinnar. „Ég hafði nóg af hugmyndum eftir. Ég á enn nóg í pípunum en ætla að sjá til hvað ég geri eftir mestu lætin með þessa. Það verða nýjar hugmyndir á nýju ári.“

Salan á bókinni gefur fyrirheit um að Hrönn haldi áfram en bókin er þriðja mest selda ungmennabókin á metsölulista Félags bókaútgefenda og efst sé aðeins horft til nýútkominna bóka. „Ég var að frétta þetta. Ég er virkilega ánægð,“ sagði Hrönn.

Rithöfundalestin hefur yfirferð sína á Vopnafirði í Kaupvangskaffi klukkan 20:00 í kvöld en verður í Safnahúsinu í Neskaupstað annað kvöld á sama tíma. Á laugardag verður lesið upp á Skriðuklaustri klukkan 14 og Skaftfelli á Seyðisfirði klukkan 20:30. Að auki er lesið upp í skólum á svæðinu.

Að rithöfundalestinni standa Menningarmálanefnd Vopnafjarðar, Gunnarsstofnun, Skaftfell menningarmiðstöð og Ungmennafélagið Egill Rauði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar