„Afi sprettur allaf upp aftur eins og gormur“
Álfheiður Ída Kjartansdóttir sigraði í flokki stúlkna 10-12 ára í Fjórðungsglímu Austurlands og vann þar með hinn eftirsótta Aðalsteinsbikar í sínum flokki.
Álfheiður Ída, eða Ída, er ekki ókunn íþróttinni, en hún er barnabarn glímukóngsins Þóroddar Helgasonar.
Ída er í sjötta bekk í Grunnskóla Reyðarfjarðar og byrjaði að æfa glímu í fimmta bekk.
„Ég var alltaf ákveðin í að æfa glímu, af þvi að afi minn og mamma æfðu bæði, líka frænka mín og frændi. Ég byrjaði bara strax að æfa þegar ég mátti, en menn geta ekki byrjað að æfa fyrr en í fimmta bekk,“ segir Ída.
Best í sniðglímu
„Afi er með okkur á æfingum þegar hann er ekki í vinnunni, annars eru Bylgja og Hjörtur að þjálfa okkur tvisvar í viku.
Við glímum tvö og tvö saman á æfingunum og æfum ákveðin brögð, en ef við erum dugleg fáum við að fara í leiki síðustu tíu mínúturnar.
Ég er best í sniðglímu, en öllum finnst hún léttust. Ég held að flestum þyki klofbragð erfiðast, en þá á maður að lyfta hinum upp í loftið og reyna að leggja hann, það er auðvelt að gera það á rosalega léttum krökkum.
Stundum glímir afi við aðra á æfingu, eins og Ásmund. Ég svolítið hrædd um hann þegar Ásmundur skellir honum niður, af því hann er miklu stærri en hann. Afi meiðir sig samt aldrei og hann sprettur alltaf upp aftur eins og gormur.“
Ætlar að verða íslandsmeistari eins og Eva Dögg
Ída segist hafa verið ákveðin í að vinna baráttuna um Aðalsteinsbikarinn.
„Eða, ég ætlaði allavega að gera mitt besta, en var ekki alveg viss um hvernig þetta færi. Á móti í fyrra endaði með jafnglími milli mín og einnar stelpu í bekknum. En núna náði enginn að vinna mig en hún tapaði einu sinni, þannig að ég vann bikarinn. Ég ætla að halda áfram í glímunni. Ég ætla að verða íslandsmeistari eins og Eva Dögg.“