Áforma 18 holu frisbígolfvöll í Selskógi

Ungir menn úr Ungmennafélaginu Þristi undirbúa uppsetningu keppnisvallar í fullri stærð, með 18 holum, fyrir frisbígolf í Selskógi. Þeir segja birkiskóginn geta verið erfiðan viðfangs en um leið gera völlinn einstakan.

Á bílastæðinu efst í Selbrekkunni á Egilsstöðum hittum við fyrir þá Lauritz Frey Karlsson, Rafael Rökkva Freysson og Glúm Björnsson úr UMF Þristi sem undirbúa uppsetningu vallarins. Þaðan er gott útsýni yfir skóginn, yfir Egilsstaði, upp á Eyvindárárdal og út Fljótsdalshérað.

Þeir hafa að mestu hannað völlinn sjálfir en einnig fengið ráðleggingar frá reynslumiklum spilurum og vallarhönnuðum. Rökkvi, Lauritz og Glúmur hafa spilað velli bæði hérlendis og erlendis, en Rökkvi hefur tvisvar orðið Íslandsmeistari í íþróttinni.

Birkið gerir völlinn í Selskógi einstakan


Frisbígolf, eða folf, er spilað með frisbígolfdiskum á körfur. Ólíkt venjulegu golfi þarf ekki að búa til brautir með hindrunum á borð við sandgryfjur, heldur en notast við náttúruna, settir upp teigar til að kasta af, brautin er að einhverju leyti afmörkuð en að öðru leyti ræður náttúran á leið að körfunni erfiðleikastiginu.

Þar hefur Selskógur sérstöðu sem birkiskógur. „Hann hentar nokkuð vel undir frisbígolf. Við segjum ekki að birkið vinni með okkur, það er heldur lágvaxið og kræklótt fyrir þau löngu köst sem við viljum geta tekið, en á sama tíma gerir það völlinn einstakan. Vellirnir eru oftast í greniskógum og Selskógur verður eini 18 holu völlurinn í birkiskógi hérlendis,“ útskýra þeir.

Margir klukkutímar í að skoða skóginn


Löglegur keppnisvöllur þýðir að völlurinn verður með 18 holum sem eru að jafnaði 60-120 metrar að lengd og jafnvel einhverjum lengri. Eins verða aðrir teigar nær körfunum á brautum þannig byrjendur geti einnig spilað völlinn.

„Við byrjuðum af alvöru að vinna í vellinum í vetur. Það hafa farið margir klukkutímar hjá okkur í að ganga um skóginn og leita að svæðum sem henta. Þannig hefur völlurinn smám saman teiknast upp,“ segir Glúmur.

Þeir hafa að undanförnu unnið að því að afla fjár til framkvæmdanna. Félagið mun leggja til stuðning og samskiptin hafa verið góð við Múlaþing en nýbúið er að senda beiðnir til fyrirtækja á svæðinu. Viðbrögðin ráða því hversu hratt verkið gengur. Við vonumst til að geta komið körfunum upp í sumar og verið með völlinn tilbúinn fyrir Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum 2025,“ segir Rökkvi.

Tíu frisbígolfvellir á Austurlandi


Enginn 18 holu völlur er á Austurlandi í dag en minni vellir víða. Á Fljótsdalshéraði eru vellir við sumarhúsabyggðina á Eiðum, í Hallormsstaðaskógi og í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum. Að auki eru velli á Vopnafirði, Borgarfirði, Norðfirði, Fáskrúðsfirði, Breiðdalsvík og Djúpavogi auk þess sem nokkrar körfur eru í Möðrudal, samkvæmt yfirliti frá Frisbígolfsambandi Íslands. Með keppnisvelli gefst tækifæri á að fá stærri mót austur. „Við vonumst til að fá keppendur úr Reykjavík, jafnvel erlendis frá,“ segir Rökkvi.

Fjöldi vallanna gefur vísbendingu um hversu vinsæl íþróttin hefur orðið á stuttum tíma. Algengt er að fjölskyldur grípi með sér diskana í sumarfrí. „Við höfum líka framtíðarsýn fyrir völlinn í Tjarnargarðinum, að taka hann í gegn eða jafnvel færa hann. Það skiptir máli að hafa byrjendavöll inni í bænum. Við höfum líka hug á að vera með barna- og unglingastarf eða inniæfingar á veturna,“ segir Glúmur.

Þeir segja nokkurn fjölda spila frisígolf á Fljótsdalshéraði. Hins vegar sé ekkert skipulagt starf í boði en því vilji þeir breyta. „Það eru bara þeir sem þekkjast sem spila saman en við viljum gjarnan verið með skipulagða hópa, þar sem fólk hittist til dæmis vikulega,“ segir Lauritz.

„Fólk leitaði mikið í þetta í Covid og síðan hefur íþróttin vaxið. Það er svolítið hver í sínu horni núna en það virðast til diskar á flestum heimilum miðað við að maður rekst á margt fólk á völlunum,“ segir Rökkvi að lokum.

Glúmur, Rökkvi og Lauritz á teig með braut í baksýn sem þeir áforma að verði ein sú lengsta á frisbígolfvellinum í Selskógi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar