Afreksfólk Neista verðlaunað
Ungmennafélagið Neisti á Djúpavogi tilnefndi og verðlaunaði afreksfólk sitt á uppskreuhátíð félagsins fyrir stuttu.
Íþróttamenn ársins eru tveir að þessu sinni, en þeir Jens Albertsson og Bergsveinn Ás Hafliðason þóttu báðir vel að titlinum komnir. Báðir æfa þeir knattspyrnu af miklum metnaði með Neista og Fjarðarbyggð, spiluðu síðasta sumar undir formerkjum UÍA og tóku einnig þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ.
Fótboltaneistinn 2015 er Diljá Ósk Snjólfsdóttir. Diljá æfir knattspyrnu hjá Neista ásamt því að gera sér ferð á Höfn reglulega til að æfa með jafnöldrum hjá Sindra. Hún sótti fótboltamót með Sindra síðasta sumar og fót til dæmis til Vestmanneyja að keppa á einu stærsta móti sumarsins í stúlknafótbolta.
Ragnar Björn Ingason hlaut verðlaun fyrir bestu fótboltaástundun og framfarir 2015, en hann byrjaði að æfa knattspyrnu árið 2015 og hafa framfarir hans verið miklar.
Sundneistinn 2015 er Þór Albertsson, en hann átti frábært sundár í fyrra. Hann var stigahæstur í sínum aldursflokki á Sumarhátið UÍA og mjög sigursæll. Hann vann til þriggja gullverðlauna á Unglingalandsmóti UMFÍ í flokki 11-12 ára.
Diljá Ósk Snjólfsdóttir hlaut verðlaun fyrir bestu sundástundun og framfarir 2015. Diljá var stigahæst í sínum aldursflokki UÍA en vann einnig til verðlauna á Unglingalandsmóti UMFÍ.
Framtíðin er björt innan Neista
William Óðinn Lefever, framkvæmdastjóri Neista segir að framtíðin sé svo sannarlega björt innan félagsins.
„Árangur þessara krakka er alveg meiriháttar, en þau eru iðin við kolann og nýta hvert tækifæri til æfinga og íþróttaástundunnar. Framundan er sundmót Neista og að sjálfsögðu Sumarhátíð UÍA.
Fótboltinn og sundið hafa verið í forgrunni hjá félaginu en við vonumst til þess að frjálsu íþróttirnar og fimleikarnir fari vaxandi, en nú erum við komin með þjálfara í þær greinar krefjast báðar ákveðinnar aðstöðu og tækja, en við reynum að nýta það sem til er,“ segir Óðinn.
Ljósmynd - frá vinstri: Diljá Ósk Snjólfsdóttir, Ragnar Björn Ingason, Þór Albertsson, Jens Albertsson og Bergsveinn Ás Hafliðason.