Álkarl ársins: Faðir minn bannaði mér að hætta

Atli Pálmar Snorrason er sá eini í ár sem lýkur austfirsku þríþrautinni Álkarlinum. Nafnbótina hljóta þeir sem ljúka lengri leiðunum í Urriðavatnssundi, Barðneshlaupi og Tour de Orminum.


„Það er góð tilfinning að hafa lokið þrautinni en það var mikið erfiði á bakvið hana,“ segir Atli Pálmar.

Það hefur verið nóg að gera hjá honum að undanförnu því aðeins ein vika var á milli hverrar þrautar. Það sagði til sín í hjólreiðunum um helgina. „Mig langaði að hætta eftir 20 km en faðir minn bannaði mér það.“

Fyrstu álkarlarnir voru útnefndir í fyrra og urðu þeir þá þrír. Atli Pálmar er sá yngsti til að klára þrautirnar þrjár á sama árinu og jafnframt sá yngsti en hann er 19 ára.

Hann hefur í gegnum tíðina lagt stund á frjálsíþróttir hjá Hetti. Þær reyndust honum góður grunnur í þrautinni en sérstaklega sundið er frábrugðið. „Mér fannst hjólið erfiðast. Ég hef alltaf hlaupið lengri hlaup með og það hjálpaði mér mikið.“

Það var á frjálsíþróttaæfingu í vetur sem hugmyndin fæddist að því að stefna á Álkarlinn. „Þjálfarinn minn stakk upp á að ég tæki þátt. Ég hef gaman af að taka áskorunum sem krefjast mikils erfiðis. Það var skotið á mig og eftir það gat ég ekki hætt við.“

Í Urriðavatnssundinu þarf að synda 2,5 km, sem reyndar var stytt niður í 1,5 vegna veðurs í ár, hlaupa 27 km Barðsneshlaup og loks hjóla 103 km í Tour de Orminum.

„Þetta voru skemmtilegar og krefjandi þrautir og gaman að hafa tekið þátt í þeim. Ég á góðar minningar úr þeim og það er skemmtilegt að hafa orðið álkarl.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.