Alvar Logi bætti Íslandsmet í kraftlyftingum

Alvar Logi Helgason frá Egilsstöðum bætti um síðustu helgi Íslandsmetið í bekkpressu unglinga á heimsmeistaramóti unglinga.

Alvar Logi keppti í -105 kg flokki þar sem lyft er hnébeygju, réttstöðulyftu og bekkpressu. Honum gekk mjög vel í öllum greinum og bætti sinn persónulega árangur.

Hann lyfti í bekkpressunni 170 kg og bætti þar með Íslandsmet unglinga um 2,5 kg. Hann átti eldra metið sjálfur, setti það á heimsmeistaramóti unglinga í Rúmeníu fyrir ári.

Í hnébeygjunni gerði hann allar lyftur gildar. Hann lyfti mest 255 kg og bætti fyrri árangur sinn um 5 kg. Í réttstöðulyftunni lyfti hann 280 kg, sem er bæting um 10 kg. Hann lyfti alls 705 kg og varð 24. í heildarkeppninni. Bestum árangri náði hann í réttstöðulyftunni þar sem hann varð 21. Hann reyndi við 287,5 kg en tókst ekki. Sigurvegarinn í flokknum var danskur og lyfti alls 903,5 kg.

Alvar Logi hefur náð skjótum frama í kraftlyftingunum sem hann byrjaði að æfa í Covid-faraldrinum. Hann vann sinn flokk á Reykjavíkurleikunum sem haldnir voru í byrjun árs.

Mynd: Kraftlyftingasamband Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar