Ana Vidal: Alltaf erfitt að tapa
Ana Vidal, þjálfari karlaliðs Þróttar í blaki, sagði sitt lið hafa gefið allt sem það átti í lok leiks síns við HK í undanúrslitum Íslandsmótsins. Það dugði ekki til, Þróttur tapaði leiknum 0-3 og er úr leik.
„Þriðja hrinan hefði getað fallið hvoru megin sem var. Ég sagði við strákana fyrir hana að þetta væri síðasta tækifærið. Nú yrðu þeir að gefa allt, berjast um alla bolta, ef þið leggið ykkur ekki fram núna þá er þetta búið. Þeir gerðu hvað þeir gátu en HK vildi líka vinna.“
Hrinurnar þróuðust flestar eins. Þróttur náði smá forskoti í byrjun, HK vann sig til baka og náði yfirhöndinni en Þróttur klóraði í bakkann. HK virtist alltaf eiga eitthvað inni þegar Þróttur ógnaði.
„Ég er almennt sátt við leikin í kvöld þótt við höfum gert nokkur mistök. HK er með gott lið og vel skipulagt í vörninni. Mörg önnur eru með 1-2 leikmenn sem þau treysta á en þannig er HK ekki.“
Mesti munurinn á liðunum var um miðbik annarrar hrinu. „Við virtumst gefast upp eftir nokkur mistök og náðum ekki að vinna okkur út úr því. HK byrjaði hrinuna illa en við svöruðum ekki þegar þeir bættu sig.“
Ana hélt liðinu í drjúgan tíma saman í hring úti á vellinum eftir að leiknum lauk. „Ég sagði við strákana að það væri alltaf erfitt að tapa en mér fannst við berjast vel og það var erfitt að vinna okkur. Ég sagði þeim að vera stoltir, ekki bara af kvöldinu í kvöld heldur því sem við höfum afrekað í vetur.
Við höfum bætt okkur sem lið eftir sem á leið, þótt okkur hafi aðeins skrikað fótur eftir bikarúrslitin. Ég hef séð slíkt gerast áður.
Vissulega var ekki gott að ljúka tímabilinu á ósigri fyrir framan fjölda áhorfenda sem studdu okkur vel en við verðum að horfa á heildina, ekki bara þennan leik.
Ég sagði þeim líka að við erum með mjög unga leikmenn og mjög gamla leikmenn sem geti verið mjög erfitt en við höfum leyst það vel.“
Ana leikur einnig með kvennaliðinu. Hún og maður hennar Borja Gonzalez, uppspilari karlaliðsins, komu til Þróttar fyrir leiktíðina og virðast hafa unað sér vel. Hún segir framtíðina óráðna.
„Við viljum gjarnan vera áfram. Við höfum byrjað upp á nýtt á nýjum stað á hverju ári að undanförnu sem er alltaf erfitt. Hér þekkjum við fólkið og trúum að við getum gert betur en það er félagið sem þarf að taka lokaákvörðunina.“