„Árin þrjú hafa gert mig að grjóthörðum stuðningsmanni Hattar“

Körfuknattleiksþjálfarinn Einar Árni Jóhannsson hefur yfirgefið Hött eftir þriggja ára starf sem annar tveggja þjálfara meistaraflokks og yfirþjálfari yngri flokka. Á þessum tíma hefur meistaraflokknum tekist að halda sér í úrvalsdeild karla og komast í úrslitakeppnina í fyrsta skiptið í sögu félagsins auk þess sem fjöldi yngri iðkenda hefur tvöfaldast.

„Ég held það sé samspil margra þátta, ekki að ég sé töframaður. Viðar Örn Hafsteinsson (þjálfari meistaraflokks) hefur staðið vaktina í 13 ár og vaxið, þroskast og eflst. Síðan langar mig að trúa því að 30 ára reynslu mín í þjálfun hafi hjálpað til.

Við höfðum verið miklir vinir áður en ég kom hingað. Hann dreymdi um að fá annan þjálfara með sér til að geta rætt hlutina og komið með ferska sýn. Ég er ánægður með samstarf okkar, sem hefur vaxið frá ári til árs. Ég er ekki vanur að vera til hliðar en við fundum taktinn hægt og bítandi,“ segir Einar Árni um framþróun Hattarliðsins.

Tvöfalt fleiri í yngri flokkunum


Þegar Einar Árni kom til Hattar sumarið 2021 voru iðkendur yngri flokka um það bil 100. Síðasta vetur voru þeir rétt rúmlega 200. „Það er einn sætasti sigurinn úr þessu ævintýri. Það spilar margt inn í það. Við erum með flotta þjálfara sem eru mikið til strákarnir úr meistaraflokki. Þeir eru duglegir en líka sýnilegir í samfélaginu því þeir vinna margir í skólunum. Það hefur áhrif.

Eitt sem er sérstakt er að við Viðar þjálfum líka hvor þrjá yngri flokka. Það eru ekki margir meistaraflokksþjálfarar sem gera það. Við höfum báðir reynslu af að búa til sterka liðsheild.

Áskorunin sem félagið stendur frammi fyrir er að fjölga stelpum. Þær eru bara fjórðungur iðkenda. Á móti er hér mikil hefð fyrir fimleikum og knattspyrnu kvenna.“

Hann bendir eins og fleiri á að hár ferðakostnaður sé liðum úr dreifbýlin erfiður. „Kostnaðurinn er það sem stendur eldri krökkunum okkar fyrir þrifum. Það er dýrt að spila með fleiri en einum flokki en hjá stóru félögunum á suðvesturhorninu spila krakkar reglulega upp fyrir sig. Þessu vildi ég fjölga hér á næstu árum en það þarf að finna leiðir fyrir fjölskyldurnar.“

David og Matej mikilvægari Hetti en margir halda


Eftir nokkrar tilraunir tókst Hetti loks að halda sér í úrvalsdeild karla og spilar í vetur þar sitt þriðja tímabil í röð. Ljóst er að nokkrar breytingar verða á liðinu í vetur, eins og alltaf vill verða. Veltan er hins vegar oft meiri hjá landsbyggðarliðum þar sem efnilegir leikmenn fara í burtu í nám.

„Við erum oft spurðir að því hvort ekki sé hægt að fá betri leikmenn hingað. Þá er rétt fyrir að hafa að hér er stundaður ábyrgur rekstur sem fólkið í stjórn deildarinnar á hrós skilið fyrir. Hitt er að við Viðar trúum mikið á stöðugleika, að byggja ofan á liðið frá ári til árs í stað þess að búa til nýtt.

Það skilja ekki allir í körfuboltasamfélaginu að hér eru strákar eins og David (Guardia Ramos) og Matej (Karlovic) sem hafa búið hér í 5-6 ár, eiga orðið sínar fjölskyldur hér og taka þátt í samfélaginu umfram það að vera bara körfuboltamenn. Lykilatriði í að búa til gott lið í hópíþrótt er að það sé kjarni til staðar frá ári til árs. Þess vegna eru til dæmis þessir tveir miklu mikilvægari leikmenn fyrir Hött en margir gera sér grein fyrir.“

Einar Árni heldur nú suður til Njarðvíkur, þaðan sem hann kom og tekur við kvennaliði félagsins. Hann segist skilja afar sáttur við Héraðið. „Ótrúlega góðar móttökur og þakklæti, bæði í körfuboltanum en líka í Fellaskóla sem hefur verið vinnustaður okkar hjóna eru mér efst í huga. Þetta er samfélag sem okkur þykir ótrúlega vænt um og við kveðjum með miklum trega. Ég veit að framtíðin er björt hér og þess vegna hlakka ég til að fylgjast með Hetti. Ég og öll mín fjölskylda eru orðnir grjótharðir stuðningsmenn Hattar.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.