Ásmundur Hálfdán glímukóngur Íslands; Grettisbeltið komið austur á Reyðarfjörð
Hundraðasta og sjötta Íslandsglíman fór fram í íþróttahúsinu í Frostaskjóli á laugardaginn.
Eftir snarpar og bráðskemmtilegar glímur stóð Reyðfirðingurinn Ásmundur Hálfdán Ásmundsson UÍA uppi sem sigurvegari í karlaflokki og hampar því Grettisbeltinu elsta verðlaunagrip á Íslandi og hlýtur sæmdarheitið glímukóngur Íslands. Ásmundur vann einnig Hjálmshornið fyrir fallegustu glímurnar.
„Þetta var ljúfur sigur en keppnin var þó fullspennandi,“ sagði Ásmundur Hálfdán í samtali við Austurfrétt í morgun. „Við vorum tveir sem töpuðum einni glímu hvor þannig að við þurftum að keppa til úrslita. Ég hafði hann en það var ekki auðvelt.“
Marín Laufey Davíðsdóttir HSK vann Freyjumenið í fjórða sinn og er því glímudrottning Íslands árið 2016. Fimm kepptu í flokki karla, þar af tveir frá UÍA, og sjö í flokki kvenna, þar af fjórar frá UÍA.