Ásmundur Hálfdán valinn glímumaður Reykjavíkurleikanna

Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, glímukappi frá Reyðarfirði, var valinn glímumaður Reykjavíkurleikanna sem fram fóru um helgina.

 

 

Ásmundur vann alla sína flokka, en þeir voru +90 kg og opinn flokkur í báðum greinum.


Alls tóku sjö iðkendur frá glímudeild Vals Reyðarfirði þátt í leikunum og kepptu í hefðbundinni glímu og skosku glímunni „backhold“ undir merkjum UÍA.

Eva Dögg Jóhannsdóttir vann bæði -65 kg og opinn flokk í glímunni en hún tók ekki þátt í backhold. Hjörtur Elí Steindórsson vann -80 kg flokkinn í glímu og lenti í þriðja sæti í opnum flokki og Kristín Embla Guðjónsdóttir náði þriðja sæti í +65 kg flokki í glímunni.

Aðrir keppendur UÍA stóðu sig með prýði, en sumir þeirra voru að keppa í fyrsta sinn í backhold.


Íslandsglíman og landsliðsferð framundan

Hin árlega Íslandsglíma verður haldin í Frostaskjóli í byrjun apríl. Þar keppa allir við alla óháð þyngdarflokkum og er það mót sem skiptir glímufólk mestu máli á keppnistímabilinu. Ásmundur segir allar æfingar og mót vetrarins miða að því að undirbúa sig sem best undir hana.

„Íslandsglíman er þess eðlis að menn leggja allt annað til hliðar á meðan, það er bara svoleiðis. Ég hef einu sinni náð þriðja sæti og var svo í öðru sæti í fyrra þegar Sindri Freyr Jónsson vann Grettisbeltið hér í íþróttahúsinu á Reyðarfirði.

ætla mér að taka þetta í ár, það verður einhver UÍA-maður að ná beltinu í fjórðunginn, en það hefur aldrei gerst. Eva Dögg Jóhannsdóttir var fyrsta konan til þess að vinna Freyjumenið fyrir UÍA í fyrra,“ segir Ásmundur. 

Ekki var hægt að sleppa Ásmundi án þess að minnast aðeins á óhapp sem átti sér stað á Reykjavíkurleikunum um helgina, þegar mótherji hans, Gunnar Logason fótbrotnaði í viðureign þeirra á milli.

„Þetta er mjög leiðinlegt og alls ekki hluti af áætlun minni að ná Grettisbeltinu heim. Gunnar brotnaði vissulega þegar hann var að glíma við mig en ég held nú frekar að það hafi verið vegna mistaka hjá honum sjálfum, ekki að ég hafi verið svona harðhentur við hann,“ segir Ásmundur.

Apríl verður annasamur mánuður hjá Ásmundi og félögum hans í glímunni, en auk þess að berjast um Grettisbeltið fer hann ásamt Hyrti Elí og Evu Dögg til Frakklands þar sem keppt verður í keltneskum fangbrögðum.

„Staða okkar þar er bara ágæt, en ekki er keppt í íslensku glímunni heldur þjóðaríþróttum annarra þannig að við erum ekki alveg á heimavelli en ætlum að sjálfsögðu að gera okkar besta."

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar