Aukinn áhugi á frisbígolfi með fyrsta alvöru vellinum á Norðfirði

Haustmót frisbígolfara á Austurlandi fór fram á Norðfirði á sunnudag en velli hefur verið komið upp í kringum skógræktarsvæðið og snjófljóðavarnagarðana fyrir ofan bæinn. Forsprakki frisbígolfara var ánægður með mótið og aukinn áhuga á greininni.


„Þetta gekk ljómandi vel og mæting var framar vonum. Sérstaklega var gaman að sjá hvað það mættu margir af yngri kynslóðinni sem lofar góðu fyrir næstu ár,“ segir Sigurjón Magnússon.

Frisbígolf er spilað með frisbígiskum eftir svipuðum reglum og venjulegt golf nema að í staðinn fyrir holur er skotið ofan í körfur.

Segja má að Sigurjón sé frumkvöðull í greininni á Austurlandi. Hann kynntist henni meðan hann bjó í Reykjavík en tók við að kenna Austfirðingum eftir að hann flutti austur. Tvö ár eru frá því hann kynnti íþróttina fyrst á vegum UÍA í Hreyfiviku á Egilsstöðum.

Þá kviknaði smá áhugi og varð meðal til þess að settur var upp sex holu völlur í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum. Sigurjón hélt áfram að kynna greinina fyrir ýmsum hópum um veturinn, bæði innanhúss og utan og þar varð til hugmyndin að vellinum á Norðfirði.

Framtakssamir Norðfirðingar héldu hugmyndinni á lofti, fengu Sigurjón með til að hanna völlinn, og með stuðningi frá SÚN var hann opnaður í byrjun sumars. Hann er níu holur og talsvert meira krefjandi en völlurinn á Egilsstöðum.

„Hann reynir á þótt brautirnar séu ekki langar. Hann er í bratta og það er mikill trjágróður og hár gróður á jörðinni þannig að menn þurfa að vera vandvirkir. Þeir sem eru lengra komnir stressast því slæmt skot getur gert þeim lífið verulega leitt og byrjendur geta lent í að þurfa að leita mikið að diskunum í háu grasi.“

Hugmyndir eru uppi um völl á Reyðarfirði og stærri völl á Egilsstöðum. „Ég hef orðið var við verulega aukinn áhuga eftir að völlurinn á Norðfirði var settur upp. Við sjáum því fram á bjarta framtíð.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar