Austfirðingar sigursælir í Íslandsglímunni

Þórður Páll Ólafsson er nýr glímukóngur Íslands og Marín Laufey Davíðsdóttir glímudrottning. Þau búa bæði á Reyðarfirði þótt Þórður Páll glími fyrir UÍA og Marín Laufey fyrir HSK.

Íslandsglíman, þar sem keppt er um Grettisbeltið í karlaflokki og Freyjumenið í kvennaflokki, fór fram á Laugarvatni um helgina.

Marín Laufey vann þar Freyjumenið í sjötta sinn. Hún var með fullt hús, þrjá vinninga. Elín Eik Guðjónsdóttir úr UÍA varð önnur eftir að hafa lagt Jóhönnu Vigdísi Pálmadóttur úr Glímufélagi Dalamanna í glímu um annað sætið. Kristín Embla Guðjónsdóttir var þriðji fulltrúi UÍA í keppninni en glímufólk úr Val Reyðarfirði keppir á landsvísu undir merkjum héraðssambandsins.

UÍA átti einnig þrjá keppendur í karlaflokki. Þar vann Þórður Páll með átta vinninga en hann lagði alla sína andstæðinga. Hann vann þar með Grettisbeltið í fyrsta sinn. Hákon Gunnarsson varð annar með sjö vinninga. Snjólfur Björgvinsson var þriðji keppandinn.

Þá eru einnig gefin verðlaun fyrir fegurð í glímu. Marín Laufey fékk hæstu einkunn í kvennaflokki og Kristín Embla næst hæstu. Þar heitir verðlaunagripurinn Rósin.

Í karlaflokki komst Hákon einn Austfirðinga í efstu sætin, varð annar. Sigurvegarinn fékk hins vegar Hjálmshornið.

Mynd: Glímusamband Íslands/Antanas Šakinis Photography


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.