Austfirskt æfingamót hefst um helgina

Fimm lið frá fjórum félögum taka þátt í Austurlandsmóti í knattspyrnu karla sem hefst um helgina. Markmið mótsins er að gefa ungum austfirskum leikmönnum fleiri tækifæri á samkeppnishæfum leikjum á undirbúningstímabilinu.

Tvö lið frá Fjarðabyggð auk liða frá Hetti/Huginn, Leikni og Sindra eru skráð til þátttöku í mótinu sem leikið verður í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði. Fyrstu leikirnir verða um helgina og teygja sig svo yfir næstu fimm helgar, auk þess sem ein umferð verður leikin í miðri viku. Fyrst verður leikið með deildarfyrirkomulag en síðar úrslitakeppni.

„Þetta er í fyrsta sinn í nokkur ár sem okkur tekst að setja saman svona mót. Hugsunin að baki því er að styðja við uppbyggingu ungra leikmanna á Austurlandi og vera sjálfum okkur nógir. Að þurfa ekki að fara langt til að spila heldur leika meira okkar á milli þannig leikmennirnir fái fleiri leiki.

Hjá Fjarðabyggð höfum við unnið að því að semja við unga leikmenn þannig við getum verið með vel mannað lið heimamanna á undirbúningstímabilinu. Það er að takast núna með tveimur liðum,“ segir Helgi Freyr Ólason, formaður Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar.

Liðin hafa mörg tekið þátt í Kjarnafæðismótinu á Akureyri síðustu ár, en þar hafa lið KA og Þórs Akureyri yfirleitt borið af öðrum liðum. Helgi Freyr að gott geti verið fyrir lið að spila gegn sterkum andstæðingum en bendir á að leikir milli liða í úrvalsdeild annars vegar eins og KA, hins vegar liða úr þriðju deild eins og Hattar/Hugins og Sindra, geti verið ójafnir og þar af leiðandi ekki til mikils fyrir liðin, sérstaklega fyrir unga leikmenn sem jafnvel séu að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki.

Þá sé hentugt í ástandi þar sem lagst er gegn ferðalögum milli landshluta að draga úr langferðum. Ef vel takist til geti lið síðar meir haft áhuga á að taka þátt í mótinu fyrir austan.

„Fjarðabyggð á lítinn séns í lið úr efri hluta úrvalsdeildar sem jafnvel er að berjast um að komast í Evrópukeppnina. Mót eins og þetta er meira heillandi fyrir unga leikmenn, að spila þéttar og meira. Ég held þetta sé jákvætt fyrir Austurland að vera komið á þann stað að geta haldið úti okkar eigin móti.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.