Austfjarðalið efst í tveimur deildum

Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis í annarri deild kvenna og Hattar/Hugins í þriðju deild karla eru efst í sínum deildum og hafa ekki enn tapað leik á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Leiknir hefur unnið þrjá leiki í röð og Einherji vann skrautlegan sigur.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir tók á móti Völsungi á föstudagskvöld en um toppslag var að ræða þar sem hvorugt liðið hafði fyrir leikinn tapað stigi. Úrslit leiksins, 7-0 sigur austanliðsins, endurspegluðu það ekki.

Elísabet Anna Gunnlaugsdóttir kom Fjarðabyggð/Hetti/Leikni yfir strax á annarri mínútu og Halldóra Birta Sigfúsdóttir jók forustuna á fimmtu mínútu.

Í seinni hálfleik skoraði Bayleigh Ann Chaviers á 62. mínútu, Freyja Karín Þorvarðardóttir á 69. mínútu, hin 15 ára gamla Björg Gunnlaugsdóttir setti sitt fyrsta meistaraflokksmark á 77. mínútu, fimm mínútum eftir að hún kom inn sem varamaður, Bayleigh skoraði aftur á 79. mínútu og þremur mínútum síðar innsiglaði Alexandra Taberner stórsigurinn.

Eftir fimm leiki er Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir eitt í efsta sætinu með fullt hús stiga og markatöluna 24-6. Á laugardag gerði Einherji 1-1 jafntefli við Hamrana á Vopnafirði. Amanda Lind Elmarsdóttir skoraði á 27. mínútu, tíu mínútum eftir að gestirnir komust yfir. Einherji er í 11. sæti með tvö stig.

Manni og marki undir

Karlalið Einherja vann skrautlegan sigur á Dalvík/Reyni á Vopnafirði í síðustu umferð þriðju deildar karla. Gestirnir komust yfir á þriðju mínútu og enn syrti í álinn kortéri síðar þegar markvörðurinn Björgvin Geir Garðarsson var rekinn út af. Miðjumaðurinn Dylian Kolev fór í markið og Freymar Örn Ómarsson valdi góðan tíma til að skora sín fyrstu mörk í meistaraflokki. Þau komu á 36. og 63. mínútu leiksins.

Þetta var annar sigur Einherja í sumar og er liðið í 9. sæti deildarinnar. Höttur/Huginn er í því efsta með 16 stig eftir 0-2 sigur á Víði í Garði. Steinar Aron Magnússon kom austanliðinu yfir á 79. mínútu og Stefan Spasic innsiglaði sigurinn á 89. mínútu.

Þriðji sigur Leiknis

Í annarri deild karla vann Leiknir sinn þriðja leik í röð, 1-3 gegn Völsungi á Húsavík. Völsungar komust yfir í lok fyrri hálfleiks en Marteinn Már Sverrisson skoraði á 53. mínútu og 69. mínútu. Izaro Abella skoraði síðasta mark Fáskrúðsfirðinga þremur mínútum fyrir leiksloks. Með sigrinum hefur Leiknir híft sig upp í miðja deildina eftir erfiða byrjun.

Fjarðabyggð náði í stig annan leikinn í röð með 0-0 jafntefli gegn Kára á Akranesi. Fjarðbyggð lék einum manni færri síðasta kortérið eftir að Marinó Máni Atlason fékk sitt seinna gula spjald á 74. mínútu. Liðið er í 11. sæti með þrjú stig.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.