Austfjarðalið efst í tveimur deildum
Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis í annarri deild kvenna og Hattar/Hugins í þriðju deild karla eru efst í sínum deildum og hafa ekki enn tapað leik á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Leiknir hefur unnið þrjá leiki í röð og Einherji vann skrautlegan sigur.Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir tók á móti Völsungi á föstudagskvöld en um toppslag var að ræða þar sem hvorugt liðið hafði fyrir leikinn tapað stigi. Úrslit leiksins, 7-0 sigur austanliðsins, endurspegluðu það ekki.
Elísabet Anna Gunnlaugsdóttir kom Fjarðabyggð/Hetti/Leikni yfir strax á annarri mínútu og Halldóra Birta Sigfúsdóttir jók forustuna á fimmtu mínútu.
Í seinni hálfleik skoraði Bayleigh Ann Chaviers á 62. mínútu, Freyja Karín Þorvarðardóttir á 69. mínútu, hin 15 ára gamla Björg Gunnlaugsdóttir setti sitt fyrsta meistaraflokksmark á 77. mínútu, fimm mínútum eftir að hún kom inn sem varamaður, Bayleigh skoraði aftur á 79. mínútu og þremur mínútum síðar innsiglaði Alexandra Taberner stórsigurinn.
Eftir fimm leiki er Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir eitt í efsta sætinu með fullt hús stiga og markatöluna 24-6. Á laugardag gerði Einherji 1-1 jafntefli við Hamrana á Vopnafirði. Amanda Lind Elmarsdóttir skoraði á 27. mínútu, tíu mínútum eftir að gestirnir komust yfir. Einherji er í 11. sæti með tvö stig.
Manni og marki undir
Karlalið Einherja vann skrautlegan sigur á Dalvík/Reyni á Vopnafirði í síðustu umferð þriðju deildar karla. Gestirnir komust yfir á þriðju mínútu og enn syrti í álinn kortéri síðar þegar markvörðurinn Björgvin Geir Garðarsson var rekinn út af. Miðjumaðurinn Dylian Kolev fór í markið og Freymar Örn Ómarsson valdi góðan tíma til að skora sín fyrstu mörk í meistaraflokki. Þau komu á 36. og 63. mínútu leiksins.
Þetta var annar sigur Einherja í sumar og er liðið í 9. sæti deildarinnar. Höttur/Huginn er í því efsta með 16 stig eftir 0-2 sigur á Víði í Garði. Steinar Aron Magnússon kom austanliðinu yfir á 79. mínútu og Stefan Spasic innsiglaði sigurinn á 89. mínútu.
Þriðji sigur Leiknis
Í annarri deild karla vann Leiknir sinn þriðja leik í röð, 1-3 gegn Völsungi á Húsavík. Völsungar komust yfir í lok fyrri hálfleiks en Marteinn Már Sverrisson skoraði á 53. mínútu og 69. mínútu. Izaro Abella skoraði síðasta mark Fáskrúðsfirðinga þremur mínútum fyrir leiksloks. Með sigrinum hefur Leiknir híft sig upp í miðja deildina eftir erfiða byrjun.
Fjarðabyggð náði í stig annan leikinn í röð með 0-0 jafntefli gegn Kára á Akranesi. Fjarðbyggð lék einum manni færri síðasta kortérið eftir að Marinó Máni Atlason fékk sitt seinna gula spjald á 74. mínútu. Liðið er í 11. sæti með þrjú stig.