Austri og Eskja hvetja börn á Eskifirði til íþróttaiðkunar

Ungmennafélagið Austri á Eskifirði hefur gert samstarfssamning við útgerðarfélagið Eskju með það að markmiði að auka íþróttaiðkun meðal barna á Eskifirði. Þá verður rafíþróttadeild stofnuð innan félagsins í kvöld.

Eskja og Austri gerðu nýverið samning sem felur það í sér að Eskja leggur félaginu til fimm milljónir króna á ári til næstu þriggja ára.

„Kannanir hafa sýnt að ástundum íþrótta meðal barna á Eskifirði er lág og hluti þessa styrks fer til að auka áhuga barna á hreyfingu.

Hann nýtist til að styrkja deildirnar okkar, meðal annars er núna tilraunaverkefni í gangi um að bjóða upp á rútuferðir á samæfingar í fótbolta á Reyðarfirði því æfingaaðstaðan hér er takmörkuð, nema fyrir yngstu börnin,“ segir Kristinn Þór Jónasson, formaður Austra.

Ávísun á hreyfingu

Í haust var öllum börnum nemendum í grunnskóla Eskifjarðar, sem og elsta árangi leikskólans, fært gjafabréf upp á 10 þúsund krónur auk þess að fá íþróttabol merktan Austra og Eskju. Gjafabréfinu er ætlað að ganga upp í æfingagjöld, en notkun þess er ekki bundin við Austra.

„Skilyrðið er bara að hann fari í íþróttaæfingar. Það er hægt að nota hann í karate og fleiri greinar sem ekki eru stundaðar innan Austra,“ útskýrir Kristinn.

Þá er hugað að því að bæta aðstöðu til íþrótta á Eskifirði en útikörfuboltavöllur við grunnskólann er á teikniborðinu. Kristinn segir ennfremur mikilvægt að ná til foreldra sem á að gera með fyrirlestrum um hreyfingu. „Það þarf að auka áhuga foreldranna líka.“

Frá tölvunni heima í félagsstarf

Fyrst stendur samt til að stofna rafíþróttadeild innan félagsins en stofnfundur hennar verður haldinn í félagsheimilinu Valhöll í kvöld. Þótt einhverjum kunni að þykja það skjóta skökku við að auka íþróttaiðkun með að æfa tölvuleiki bendir Kristinn Þór á að hlutirnir séu öðruvísi þegar betur sé að gáð.

„Ég hef fylgst með svona deildum í kringum okkur, meðal annars á Höfn og í Reykjavík. Ég hélt fyrst að þetta væri óttalegt bull og börnin væru bara að spila tölvuleiki en það er ekki svo heldur eru þau líka í íþróttaæfingum. Sums staðar eru 90 mínútna æfingar þar sem fyrstu 30 mínúturnar eru hreyfing.

Okkar markmið er að draga krakkana frá því að sitja ein í tölvunni heima og á æfingar í félagsstarf þar sem þau eru með öðrum og hreyfa sig. Það er mjög mikilvægt að draga úr þessari félagslegu einangrun. Ég hef heyrt frábærar sögur af börnum sem fóru í svona starf og blómstruðu í kjölfarið. Okkar deild er á byrjunarstigi en í kvöld ætlum við að ræða hvernig við vinnum þetta áfram.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar