Auðveldur sigur Hattar á Reyni: Myndir

hottur_reynirs_karfa_nov12.jpg
Höttur vann Reyni Sandgerði örugglega 103-60 í fyrstu deild karla í körfuknattleik á fimmtudagskvöld. Hattarmenn náðu snemma tuttugu stiga forskoti og létu það aldrei af hendi. Tækifærið var nýtt til að gefa óreyndari leikmönnum tækifæri.

Staðan eftir fyrsta fjórðung var 30-9 og ljóst í hvað stefndi. Leikur Reynis var hægur og hikandi, ráðvilltur. Þeir hittu illa og Hattarmenn stálu boltanum trekk í trekk og náðu skyndisóknum. Frisco Sandidge tróð þrisvar í leiknum og alls stal Höttur 19 boltum í leiknum, þar af Andrés Kristleifsson fimm.

Staðan var ekki björgulegri í hálfleik, 58-19. Staðan var lítillega löguð með þriggja stiga flautukörfu Ólafs Geirs Jónssonar, sem er betur þekktur utanvallar undir listamannsnafninu DJ Óli Geir.

Fáir Sandgerðingar

Áhugi Reynismanna á leiknum virtist takmarkaður. Liðið er nýtt í fyrstu deildinni og hefur tapað illa gegn fleiri liðum. Aðeins átta leikmenn komu á vegum þess austur. Úrvalið á bekknum var því takmarkað.

Hraðlest Hattar hélt áfram í seinni hálfleik þótt Reynir skoraði heldur fleiri stig en í þeim fyrri. Eftir þriðja leikhluta var staðan 76-39 og lokstaðan 103-60.

Notuðum leikinn til að bæta okkur

„Við byrjuðum af krafti eins og við ætluðum okkur. Við höfum byrjað síðustu tvo leiki illa þannig við nýttum leikinn í dag í að vinna í okkar leik,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, í leikslok.

„Það er miður að segja það en þeir voru fáir og slakir og það var mjög létt fyrir okkur að keyra yfir þá. Við náðum strax 20-30 stiga forskoti og keyrðum upp hraðann. Við vissum að við værum töluvert betri en þeir en mættum ekki vera kærulausir eins og í síðasta leik.“

Gott að geta verðlaunað duglega stráka

Austin Bracey var stigahæstur með 26 stig og nánast fullkomna skotnýtingu en Frisco skoraði 25 stig. Þeir spiluðu minna en oft áður, báðir innan við hálftíma. Tækifærið var nýtt til að leyfa óreyndari leikmönnum spilatíma og Ásmundur Magnússon lék sinn fyrsta leik.

„Við höfum ekki farið svona djúpt á bekkinn áður. Það er gott að gefa gefið ungum strákum sem æfa vel séns í svona leikjum.“

Næsti leikur Hattar verður gegn Breiðabliki í Kópavogi á föstudagskvöld.
 
hottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpghottur_reynirs_karfa_nov12.jpg
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.