Bandý: Komum kaldir inn og fórum heitir út

Bandýsveit Fljótsdalshéraðs fagnaði sigri í B-deild Íslandsmótsins í bandý í síðasta móti vetrarins. Nokkrir leikmenn liðsins hafa vakið athygli þeirra sem halda utan um landsliðsúrvalið.


„Þetta var fyrsta mótið okkar í vetur en flest hin liðin höfðu spilað fimm mót. Við komum kaldir inn og fórum heitir út,“ segir fyrirliðinn Ólafur Bragi Jónsson, sem einnig er þekktur sem margfaldur Íslandsmeistari í torfæru.

Félagar í sveitinni hittast tvisvar í viku í íþróttahúsinu í Fellabæ og spila saman bandý. Það hafa þeir gert reglulega í ein sjö ár. „Það er alltaf einhver endurnýjun. Gamlir fara og nýir koma,“ segir Ólafur.

Sveitin hefur haft þann sið að taka þátt í einu móti Íslandsmótsins á vetri síðustu þrjá vetur. Ólafur Bragi segir liðinu hafa verið hrósað fyrir sterka liðsheild þegar það mætti fyrst til leiks á Ólafsfirði fyrir tveimur árum.

„HK-ingar eru með sterkasta lið landsins og þeir dáðust að því við hvernig við spiluðum. Þeir áttu mjög erfitt með að brjóta okkur niður og rétt mörðu okkur í úrslitaleik.“

Bandý er tiltölulega ný íþrótt hér á landi en öflug víða í Evrópu, til dæmis Svíþjóð. Ekki eru mörg ár síðan stofnað var bandýnefnd innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Hún hefur haldið utan um úrvalshóp sem tekið hefur þátt í alþjóðlegum mótum.

Ólafur Bragi segir að leikmenn að austan eigi góða möguleika á að komast í þann hóp. „Það eru aðallega þeir yngstu sem vekja athyglina. Síðan eigum við Birki Pálsson sem spilaði með okkur síðustu ár. Hann hefur verið í landsliðsúrvalinu eftir að hann flutti suður en hann spilaði með okkur á mótinu um daginn.“

Fjallað var um Bandýsveitina í Að Austan á N4 í gærkvöldi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.