Bandý: Komum kaldir inn og fórum heitir út
Bandýsveit Fljótsdalshéraðs fagnaði sigri í B-deild Íslandsmótsins í bandý í síðasta móti vetrarins. Nokkrir leikmenn liðsins hafa vakið athygli þeirra sem halda utan um landsliðsúrvalið.
„Þetta var fyrsta mótið okkar í vetur en flest hin liðin höfðu spilað fimm mót. Við komum kaldir inn og fórum heitir út,“ segir fyrirliðinn Ólafur Bragi Jónsson, sem einnig er þekktur sem margfaldur Íslandsmeistari í torfæru.
Félagar í sveitinni hittast tvisvar í viku í íþróttahúsinu í Fellabæ og spila saman bandý. Það hafa þeir gert reglulega í ein sjö ár. „Það er alltaf einhver endurnýjun. Gamlir fara og nýir koma,“ segir Ólafur.
Sveitin hefur haft þann sið að taka þátt í einu móti Íslandsmótsins á vetri síðustu þrjá vetur. Ólafur Bragi segir liðinu hafa verið hrósað fyrir sterka liðsheild þegar það mætti fyrst til leiks á Ólafsfirði fyrir tveimur árum.
„HK-ingar eru með sterkasta lið landsins og þeir dáðust að því við hvernig við spiluðum. Þeir áttu mjög erfitt með að brjóta okkur niður og rétt mörðu okkur í úrslitaleik.“
Bandý er tiltölulega ný íþrótt hér á landi en öflug víða í Evrópu, til dæmis Svíþjóð. Ekki eru mörg ár síðan stofnað var bandýnefnd innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Hún hefur haldið utan um úrvalshóp sem tekið hefur þátt í alþjóðlegum mótum.
Ólafur Bragi segir að leikmenn að austan eigi góða möguleika á að komast í þann hóp. „Það eru aðallega þeir yngstu sem vekja athyglina. Síðan eigum við Birki Pálsson sem spilaði með okkur síðustu ár. Hann hefur verið í landsliðsúrvalinu eftir að hann flutti suður en hann spilaði með okkur á mótinu um daginn.“
Fjallað var um Bandýsveitina í Að Austan á N4 í gærkvöldi.