Barðneshlaup þreytt í 23ja sinn

Hið árlega Barðneshlaup verður þreytt í 23ja sinn á laugardag. Tvær vegalengdir eru í boðinu eru í hlaupinu en keppendur eru ferjaðir með bátum í rásmarkið.

Fullt Barðsneshlaup er 27 km og hefst á Barðnesi, nokkurn vegin beint á móti Neskaupstað en hinu megin í firðinum. Eins er í boði 13 km hlaup sem hefst á Sveinsstöðum í Hellisfirði. Endamarkið í báðum hlaupum er í miðbæ Neskaupstaðar.

Ræst er á Barðsnesi klukkan tíu að morgni en klukkutíma síðar í Hellisfirði. Siglt er frá Neskaupstað klukkutíma fyrr og þurfa keppendur þá að vera tilbúnir á bryggjunni. Margir hlauparar segja bátsferðina eitt það sérstæðasta og skemmtilegasta við hlaupið.

Hlaupið hefur alltaf verið haldið í tengslum við fjölskylduhátíðina Neistaflug um verslunarmannahelgina en hugmynd skipuleggjenda hlaupsins hefur alltaf verið sú að hlauparar geti mætt og tekið þátt í skemmtilegu fjallaskokki um leið og þeir mæta með fjölskyldu sína til Norðfjarðar til að taka þátt í dagskrá Neistaflugsins.

Upphafsmaður hlaupsins er Ingólfur Sveinsson, læknir frá Barðsnesi sem er áttræður í ár og hefur verið með í öllum hlaupunum.

Hlaupið er önnur þrautin af þremur í hinum austfirska járnkarli. Þá nafnbót hljóta þeir sem klára Urriðavatnssund, Barðsneshlaup og Tour de Orminn á einu og sama sumrinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.