Benedikt tekur við sem formaður UÍA
Benedikt Jónsson hefur tekið við sem formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA). Fráfarandi formaður, Gunnar Gunnarsson gaf ekki kost á sér til endurkjörs á sambandsþingi UÍA nýlega en hann hefur verið formaður undanfarin níu ár.
„Það er nauðsynlegt að endurnýja stjórnir félagasamtaka reglulega. Flott ungt fólk á milli þrítugs og fertugs hefur verið að taka við í stjórnum aðildarfélaga UÍA og nú fannst mér kominn tími á mig,‟ segir Gunnar Gunnarsson fráfarandi formaður í samtali á vefsíðu UMFÍ þar sem fjallað er um formannsskiptin. .
"Gunnar hefur vermt formannsstól UÍA samfleytt í níu ár og einn dag en Benedikt kom inn í stjórnina árið 2017. Þrátt fyrir aðeins fjögurra ára stjórnarsetu hefur hann nú þar mestu reynsluna," segir í umfjölluninni á vefsíðunni.
"Í fyrra gengu tveir úr stjórn UÍA og bættust Gunnar og Ester Sigurðardóttir í hóp þeirra sem hætta í stjórn UÍA. Í þeirra stað komu Guðjón Magnússon og Björgvin Stefán Pétursson í stjórnina. Önnur í stjórn eru þær Þórunn María Þorgrímsdóttir og Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, sem er varaformaður UÍA.
Auk þess að hafa verið formaður UÍA í níu ár og einn dag situr Gunnar jafnframt í stjórn UMFÍ. Hann segir enga breytingu verða á því.
„Þvert á móti. Ég hef fundið að áhugi minn hafi færsti í meiri mæli yfir til UMFÍ og get sinnt því betur,‟ segir hann.
Benedikt segist taka við góðu búi. UÍA fagni 80 ára afmæli á árinu, félagið sé með endurnýjaða stjórn og trausta fjárhagsstöðu til að ráðast í þau verk sem þarf að vinna.
Aðildarfélög UÍA eru 15 talsins. Þar á meðal eru Íþróttafélagið Höttur á Egilsstöðum, Ungmennafélagið Austri á Eskifirði, Leiknir á Fáskrúðsfirði og Íþróttafélagið Þróttur á Norðfirði.
UÍA er einn 28 sambandsaðila UMFÍ. Sambandsaðilar UMFÍ skiptast í 21 íþróttahérað og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ með rúmlega 270 þúsund félagsmenn.
Mynd: Fyrrverandi og núverandi formenn UÍA./umfi.is