Benni Guðgeirs: Þetta var drullugaman í vetur

karfa_hottur_hamar_05042013_0006_web.jpg
Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar, annar fyrirliða körfuknattleiksliðs Hattar segir tímabilið hafa verið skemmtilegt þótt liðið hafi lokið keppni gegn Hamri í undanúrslitum fyrstu deildar í kvöld. Gestirnir hafi verið betra liðið í kvöld.

„Ég veit ekki hvað gerði gæfumuninn í þessum leik. Mér fannst við spila þrusugóðan bolta en þeir hljóta að hafa haft svör við öllu sem við vorum að gera. Mér fannst við vel undirbúnir og koma vel stemmdir til leiks.“

Sérstaka athygli í leiknum vakti barátta Benna við Ragnar Nathanaelsson, rúmlega tveggja metra miðherja Hamars. Þrátt fyrir stærðarmuninn barðist Benedikt, líkt og fleiri Hattarmenn, um hvern einasta bolta og hann vann þó nokkur einvígi um fráköst.

„Það er allt öðruvísi að spila gegn svona risastórum manni. Maður er alltaf með hann í huga ef maður ætlar að skjóta. Mér fannst samt gaman að spila við hann. Erfiðast var að stöðva hann á ferð í teignum en það var ekkert mál að stíga hann út fyrir fráköstin.“

Benedikt var meðal betri manna Hattar í kvöld og skoraði ellefu stig. Þrátt fyrir tapið bar hann sig mannalega. „Þetta er búið að vera drullugaman í vetur. Gengi mitt hefur verið upp og ofan. Ég byrjaði vel og skoraði slatta en datt niður. Mitt hlutverk var heldur ekkert að skora stig. Undir lokin var ég farinn að komast meira inn í sóknarleikinn aftur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.