Bestu fimleikalið landsins á leið austur um helgina
Bestu fimleikalið landsins í unglingaflokki í fimleikum eru væntanleg austur í Egilsstaði um helgina á Íslandsmótið í fimleikum.
„Þetta er eitt af flottari mótum vetrarins. Við eigum von á um 300 keppendum sem koma flestir af Suðurlandi og Akureyri,“ segir Auður Vala Gunnarsdóttir, yfirþjálfari Hattar.
Keppt verður laugardag og sunnudag. Höttur á tvö lið í mótinu sem keppa bæði á laugardag í A-deild 1. flokks. Annars vegar hreint stúlknalið en hins vegar blandað lið.
Í lok mótsins verða síðan krýndir Íslands- og deildarmeistarar í viðkomandi flokkum. „Það er frábært að sjá hvað Fimleikasambandið er til í að leyfa félögunum að taka þátt í mótahaldi. Þetta er annað mótið sem við fáum á tveimur árum. Það eflir okkur að fá að halda mót og gerir mikið fyrir okkur að þurfa ekki alltaf að fljúga,“ segir Auður.
Til stóð að hefja helgina með heimsókn Íþróttaálfsins klukkan fimm í dag. Þrátt fyrir alla sína orku flýgur hann milli staða. Vél Flugfélags Íslands sem var að koma til Egilsstaða eftir hádegi þurfti frá að hverfa vegna veðurs og frestast því heimsókn álfsins um óávkeðinn tíma.