Biðja um að fá að æfa til að geta byrjað að keppa þegar það má

Þjálfarar í úrvalsdeildum karla og kvenna í körfuknattleik hafa skorað á stjórnvöld að leyfa íþróttaæfingar keppnisfólks á ný með ströngum skilyrðum. Þjálfari Hattar telur skilning vanta á aðstæðum afreksfólks.

„Það er bara verið að biðja um að fá að æfa til að allir verði klárir þegar hægt verður að hefja mótið á ný,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Þjálfarar liða í úrvalsdeildunum hafa síðustu vikur hist á fjarfundum til að bera saman bækur sínar. Niðurstaða þeirra funda var yfirlýsing sem send var út í gær. Þar er lagðar fram tillögur um hvernig hægt væri að hefja æfingar á ný í skrefum næstu þrjár vikur.

Vaxandi atvinnumennska síðustu 20 ár

Þjálfararnir leggja áherslu á muninn á þeim sem stundi íþróttir sér til ánægju og heilsubótar eða þeirra sem hafi atvinnu af þeim. Í yfirlýsingunni segir að veruleg fjölgun hafi orðið síðustu 20 ár á þeim sem hafi atvinnu af að spila eða þjálfa körfuknattleik.

„Okkur finnst vanta skilning á því hvernig umhverfið er orðið. Flest allir leikmenn og aðrir sem að meistaraflokksliðunum koma fá einhver laun og því ætti að vera auðveldara að setja kröfur á þá um að fara eftir ströngum sóttvarnareglum, meðal annars um hegðun utan vallar eins og gert er um aðrar starfsstéttir. Með starfsliði eru flest lið með 12-15 manna hóp.

Vissulega eru flestir enn í annað hvort námi eða vinnu með íþróttunum en þróunin hefur verið í átt að atvinnumennskunni. Þetta er ekki lengur áhugamennska þar sem æft er þrisvar sinnum í viku.“

Ekki að biðja um að fá að ferðast strax

Ein umferð var leikin í Íslandsmóti karla áður en stöðvað var vegna aukinnar útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Höttur fékk reyndar að æfa lengur en liðin á höfuðborgarsvæðinu en í tæpan mánuð hefur verið algjört æfingabann.

Sem stendur varir það hið minnsta fram í fyrstu viku desember. Þar með hefur verið tveggja mánaða hlé á deildinni sem þýðir að leika þarf þéttar til að vinna upp tapaðan tíma. Þjálfararnir vilja fá að byrja æfingar nú í þröngum hópum án snertinga til að leikmenn verði klárir ef höftum verður aflétt í byrjun desember. „Það yrði vont fyrir leikmenn heilsufarslega ef öllu verður dúndrað í gang þegar hægt verður,“ segir Viðar.

Ekki er verið að þrýsta á að hefja keppni eða með tilheyrandi ferðalögum. „Maður skilur vel að ekki sé hægt að byrja að keppa og vaða milli landshluta strax.“

Viðar segir að íþróttahreyfingin þurfi að vera tilbúin að laga sig að aðstæðum í samfélaginu hverju sinni frekar en öllu sé hætt í einu. „Okkur hefur fundist sérstakt að fá ekki að æfa meðan engin smit eru á Austurlandi. Það geta alveg komið upp smit hér eftir að mótið fer af stað og þá þarf að taka á því frekar en stöðva allt mótið.“

Leikmenn Hattar tilbúnir

Í byrjun mars varð nokkur umræða þegar Brynjar Þór Björnsson, einn besti körfuknattleiksmaður landsins, neitaði að spila vegna ótta um að verða smitberi. Eru leikmenn tilbúnir að byrja að æfa? „Ég get ekki talað fyrir leikmenn annarra liða, aðeins mitt lið og það er klárt ef leyfi fæst,“ segir Viðar Örn.

Nokkur lið hafa gert breytingar í hléinu og Höttur er þeirra meðal en það sagði skilið við Bandaríkjamanninn Shavar Newkirk. Viðar Örn segir að liðið muni fá annan Bandaríkjamann í hans stað og sé tilkynningar um hann að vænta á næstu dögum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar