Bikarkeppni karla: Þróttarar réðu ekki við Piotr
Þróttur Neskaupstað þarf aðra tilraun til að verða bikarmeistari karla í blaki eftir að hafa tapað 1-3 fyrir KA í úrslitaleik í dag. Þrótturum gekk illa að ráða við Piotr Kempisty sem var valinn maður leiksins.
Úrslit fyrstu hrinu réðust í upphækkun og ekki varð meira en tveggja stiga munur fyrr en komið var fram í 15-13. KA var þó yfirleitt skrefinu á undan og vann 28-26.
Segja má að hrinan hafi gefið tóninn fyrir leikinn. Í fyrstu hrinu leituðu Þróttarar mikið að Matthíasi Haraldssyni sem bar uppi sóknarleik þeirra. Hann fann oftast glufur í vörn KA en því miður ekki í síðasta stiginu þegar hann smassaði í hávörnina.
Þróttur komst í 10-14 í annarri hrinu en Akureyringar jöfnuðu í 19-19. Þá var allt komið í baklás hjá Þrótti meðan Piotr negldi niður hverju smassinu á fætur öðru þannig að KA vann hrinuna 25-21.
Þróttur leiddi framan af í fjórðu hrinu, var yfir 5-8 en KA jafnaði það. Þróttur tók þá leikhlé og byggði aftur upp gott forskot. Komst í 11-14 og síðan 13-17. Þá virtust KA-menn hreinlega hættir og Þróttur vann hrinuna 16-25.
En það var tímabundin hvíld. Eftir að jafnt var upp í 10-10 náðu KA-menn loksins tveggja stiga forskoti, 12-10. Þróttur átti þá góða rispu og komst í 13-14 en KA átti tvö stig í röð.
Ana Vidal, þjálfari Þróttar tók leikhlé en það skilaði litlu og KA tók á rás og vann hrinuna að lokum 25-18.
Þróttur átti ágætis kafla í leiknum en aldrei langar runur. Vörnin var stundum í lagi en gekk mjög illa að díla við föst smöst Piotr sem alls skoraði 36 stig, tæp 40% stiga KA. Í blaki er ekki hægt að taka menn úr umferð en það má reyna að setja upp hávörn eða í tilfelli Pitors, vonast til að fá smössin í sig.
Það jákvæða fyrir Þrótt er að hafa yfir höfuð komist í bikarúrslitin í fyrsta sinn í sögu félagsins með góðum sigri á Stjörnunni. Hann ætti að efla sjálfstraustið fyrir úrslitakeppnina.
Til samanburðar má nefna að KA hefur miklu meiri reynslu af bikarúrslitaleikjum og hefur unnið bikarinn fjórum sinnum á síðustu sex árum. Liðið hefur ekki verið jafn fengsælt í Íslandsmótinu þar sem HK hefur unnið fjögur ár í röð.
Matthías Haraldsson var stigahæstur Þróttar með 18 stig.