Bikarkeppni karla: Þróttarar réðu ekki við Piotr

Þróttur Neskaupstað þarf aðra tilraun til að verða bikarmeistari karla í blaki eftir að hafa tapað 1-3 fyrir KA í úrslitaleik í dag. Þrótturum gekk illa að ráða við Piotr Kempisty sem var valinn maður leiksins.


Úrslit fyrstu hrinu réðust í upphækkun og ekki varð meira en tveggja stiga munur fyrr en komið var fram í 15-13. KA var þó yfirleitt skrefinu á undan og vann 28-26.

Segja má að hrinan hafi gefið tóninn fyrir leikinn. Í fyrstu hrinu leituðu Þróttarar mikið að Matthíasi Haraldssyni sem bar uppi sóknarleik þeirra. Hann fann oftast glufur í vörn KA en því miður ekki í síðasta stiginu þegar hann smassaði í hávörnina.

Þróttur komst í 10-14 í annarri hrinu en Akureyringar jöfnuðu í 19-19. Þá var allt komið í baklás hjá Þrótti meðan Piotr negldi niður hverju smassinu á fætur öðru þannig að KA vann hrinuna 25-21.

Þróttur leiddi framan af í fjórðu hrinu, var yfir 5-8 en KA jafnaði það. Þróttur tók þá leikhlé og byggði aftur upp gott forskot. Komst í 11-14 og síðan 13-17. Þá virtust KA-menn hreinlega hættir og Þróttur vann hrinuna 16-25.

En það var tímabundin hvíld. Eftir að jafnt var upp í 10-10 náðu KA-menn loksins tveggja stiga forskoti, 12-10. Þróttur átti þá góða rispu og komst í 13-14 en KA átti tvö stig í röð.

Ana Vidal, þjálfari Þróttar tók leikhlé en það skilaði litlu og KA tók á rás og vann hrinuna að lokum 25-18.

Þróttur átti ágætis kafla í leiknum en aldrei langar runur. Vörnin var stundum í lagi en gekk mjög illa að díla við föst smöst Piotr sem alls skoraði 36 stig, tæp 40% stiga KA. Í blaki er ekki hægt að taka menn úr umferð en það má reyna að setja upp hávörn eða í tilfelli Pitors, vonast til að fá smössin í sig.

Það jákvæða fyrir Þrótt er að hafa yfir höfuð komist í bikarúrslitin í fyrsta sinn í sögu félagsins með góðum sigri á Stjörnunni. Hann ætti að efla sjálfstraustið fyrir úrslitakeppnina.

Til samanburðar má nefna að KA hefur miklu meiri reynslu af bikarúrslitaleikjum og hefur unnið bikarinn fjórum sinnum á síðustu sex árum. Liðið hefur ekki verið jafn fengsælt í Íslandsmótinu þar sem HK hefur unnið fjögur ár í röð.

Matthías Haraldsson var stigahæstur Þróttar með 18 stig.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.