Bikarkeppni kvenna: Afturelding of sterk fyrir Þrótt
Afturelding hafði betur 3-0 í úrslitaleik bikarkeppninnar í blaki gegn Þrótti Neskaupstað í dag. Þróttarliðið var töluvert frá sínum besta leik.
Eltingaleikurinn hófst nánast strax í byrjun því Afturelding komst fljótt í 11-4 og jók síðan forskotið í 21-10. Þróttarliðið náði aðeins að klóra í bakkann í lok hrinunnar og minnka muninn í 25-10.
Eftir að staðan var 4-4 í annarri hrinu kom röð uppgjafa Aftureldinga sem Þróttarstelpur voru í miklum vandræðum með og staðan varð 9-5.
Sigrún Sigurðardóttir kom inn á í stað Ásdísar Jóhannsdóttur í stöðu frelsingja og af þrautseigju tókst Þrótti að minnka muninn í 16-14. Staðan var áfram jöfn, 21-19, 23-21 og 24-22 áður en mistök í sókninni skiluðu Aftureldingu stiginu sem vantaði.
Besti kafli Þróttar var fyrri hluta þriðju hrinu. Liðið leiddi á þeim kafla og var yfir 11-12. Þá kom hins vegar frábær kafli Aftureldingar sem skoraði sjö stig í röð.
Þróttur var í miklum vandræðum með móttökuna og þegar hún virtist ganga betur lokaði Afturelding hávörninni.
Í stöðunni 21-13 kom Amelía Rún Jónsdóttir, sem átti frábærar uppgjafir í undanúrslitunum í gær, inn. Hún átti aftur góðar uppgjafir og Þróttur skoraði fjögur stig í röð. Nær komst Þróttur ekki og fékk öll þau tækifæri sem hægt var.
Í stöðunni 24-18 var kantsmass Maríu Rún Karlsdóttur fyrst álitin út af en einn línudómarinn taldi að um snertingu hefði verið að ræða í hávörninni og Þrótti dæmt stig. Næsta uppgjöf flaug hins vegar beint yfir völlinn og Afturelding fagnaði bikarmeistaratitlinum.
Árangur Þróttar er góður miðað við reynsluleysi liðsins. Setja þarf saman nýtt lið á hverju hausti sem eflist jafnt og þétt eftir því sem líður á tímabilið. Í vetur hefur verið stígandi í leik liðsins og það leikið virkilega vel eftir áramót. Að komast í bikarúrslitin er staðfesting á því.
En reynsluleysið getur líka reynst dýrt eins og sást á köflum í dag. Taugarnar virtust ekki alltaf heilar og leikmenn gerðu sig seka um mistök sem kostuðu stig.
Á sama tíma hafa andstæðingarnir verið áberandi í úrslitaleikjum í blakinu undanfarin fimm ár og hafa í liði sínu eina fjóra fyrrverandi leikmenn Þróttar, þeirra á meðal uppspilarann Kristínu Salín Þórhallsdóttur. Aftureldingu hefur samt ansi oft verið lið númer tvö, oftast á eftir HK.
„Mér líður eins og við hefðum getað gert aðeins betur. Við gerðum of mörg mistök í dag,“ sagði Matthías Haraldsson, þjálfari, í samtali við RÚV eftir leikinn.
„Við festumst í ákveðnum stöðum sem við náðum ekki að losa um og það má ekki gegn liði eins og Aftureldingu. Þegar þær skoruðu fimm stig í röð átum við erfitt með að koma til baka.“
„Við erum ánægðar með að hafa komist í úrslit, nokkuð sem kannski ekki margir bjuggust við,“ sagði María Rún Karlsdóttir að leik loknum í samtali við RÚV.
„Við erum með reynslulítið lið en þetta eru allt saman efnilegar stelpur þannig ég held að þetta verði glæsilegt lið í framtíðinni.“