Bikarkeppni kvenna: Afturelding of sterk fyrir Þrótt

Afturelding hafði betur 3-0 í úrslitaleik bikarkeppninnar í blaki gegn Þrótti Neskaupstað í dag. Þróttarliðið var töluvert frá sínum besta leik.


Eltingaleikurinn hófst nánast strax í byrjun því Afturelding komst fljótt í 11-4 og jók síðan forskotið í 21-10. Þróttarliðið náði aðeins að klóra í bakkann í lok hrinunnar og minnka muninn í 25-10.

Eftir að staðan var 4-4 í annarri hrinu kom röð uppgjafa Aftureldinga sem Þróttarstelpur voru í miklum vandræðum með og staðan varð 9-5.

Sigrún Sigurðardóttir kom inn á í stað Ásdísar Jóhannsdóttur í stöðu frelsingja og af þrautseigju tókst Þrótti að minnka muninn í 16-14. Staðan var áfram jöfn, 21-19, 23-21 og 24-22 áður en mistök í sókninni skiluðu Aftureldingu stiginu sem vantaði.

Besti kafli Þróttar var fyrri hluta þriðju hrinu. Liðið leiddi á þeim kafla og var yfir 11-12. Þá kom hins vegar frábær kafli Aftureldingar sem skoraði sjö stig í röð.

Þróttur var í miklum vandræðum með móttökuna og þegar hún virtist ganga betur lokaði Afturelding hávörninni.

Í stöðunni 21-13 kom Amelía Rún Jónsdóttir, sem átti frábærar uppgjafir í undanúrslitunum í gær, inn. Hún átti aftur góðar uppgjafir og Þróttur skoraði fjögur stig í röð. Nær komst Þróttur ekki og fékk öll þau tækifæri sem hægt var.

Í stöðunni 24-18 var kantsmass Maríu Rún Karlsdóttur fyrst álitin út af en einn línudómarinn taldi að um snertingu hefði verið að ræða í hávörninni og Þrótti dæmt stig. Næsta uppgjöf flaug hins vegar beint yfir völlinn og Afturelding fagnaði bikarmeistaratitlinum.

Árangur Þróttar er góður miðað við reynsluleysi liðsins. Setja þarf saman nýtt lið á hverju hausti sem eflist jafnt og þétt eftir því sem líður á tímabilið. Í vetur hefur verið stígandi í leik liðsins og það leikið virkilega vel eftir áramót. Að komast í bikarúrslitin er staðfesting á því.

En reynsluleysið getur líka reynst dýrt eins og sást á köflum í dag. Taugarnar virtust ekki alltaf heilar og leikmenn gerðu sig seka um mistök sem kostuðu stig.

Á sama tíma hafa andstæðingarnir verið áberandi í úrslitaleikjum í blakinu undanfarin fimm ár og hafa í liði sínu eina fjóra fyrrverandi leikmenn Þróttar, þeirra á meðal uppspilarann Kristínu Salín Þórhallsdóttur. Aftureldingu hefur samt ansi oft verið lið númer tvö, oftast á eftir HK.

„Mér líður eins og við hefðum getað gert aðeins betur. Við gerðum of mörg mistök í dag,“ sagði Matthías Haraldsson, þjálfari, í samtali við RÚV eftir leikinn.

„Við festumst í ákveðnum stöðum sem við náðum ekki að losa um og það má ekki gegn liði eins og Aftureldingu. Þegar þær skoruðu fimm stig í röð átum við erfitt með að koma til baka.“

„Við erum ánægðar með að hafa komist í úrslit, nokkuð sem kannski ekki margir bjuggust við,“ sagði María Rún Karlsdóttir að leik loknum í samtali við RÚV.

„Við erum með reynslulítið lið en þetta eru allt saman efnilegar stelpur þannig ég held að þetta verði glæsilegt lið í framtíðinni.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.