Binni Skúla: Vonuðum að þeir höndluðu ekki þennan „góða“ völl okkar

Brynjar Skúlason, þjálfari Hugins, sagði lið sitt hafa verðskuldað öll stigin þrjú í gærkvöldi í Austfjarðaslagnum við Fjarðabyggð. Liðið verður samt að vinna fleiri leiki í fallbaráttunni.


„Mér fannst við mikið betri í þessum leik. Við óðum ekkert í færum en vorum með meira með boltann.

Við lögðum upp með að pressa þá í klessu og þeir myndu ekki höndla þennan „góða“ völl okkar. Þeir fengu vissulega 2-3 mjög hættuleg færi úr skyndisóknum en mér fannst við öflugri,“ sagði Brynjar.

Völlurinn var háll eftir rigningar. Leikmönnum gekk illa að fóta sig en það rýrði spilið frekar en að það skapaði varnarmistök og þar með færi.

Huginn er eftir leikinn með níu stig úr tólf leikjum. Það þýðir næst neðsta sætið en tvö stig eru upp af fallsvæðinu.

„Það er klárt að við erum ekki með nógu mörg stig. Ég hef sagt í mörgum viðtölum að við höfum átt góða möguleika í öllum leikjunum okkar nema einum. Við getum gert betur í seinni umferðinni og höfum ekki um annað að velja,“ sagði Brynjar en Íslandsmótið er hálfnað.

Huginn gekk lengi illa að skora í sumar en eitt mark dugði í gær. „Við höfum fengið fullt af færum en ekki nýtt þau. Í dag skutum við tvisvar í bumbuna á meiddum markverði sem lá á markteignum. Það er sumarið okkar í hnotskurn.“

Báðir sigrar Hugins í sumar hafa verið á Fjarðabyggð. Brynjar segist ekki kunna neina sérstaka skýringu á nýkomnu taki á nágrönnunum.

„Þar til í sumar höfðum við ekki unnið þá í mörg ár. Við virðumst af einhverjum ástæðum geta náð góðum leik gegn þeim en ég veit ekki. Öll lið hafa sína styrkleika og veikleika og við hentum þeim illa eða þeir okkur vel.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar