Blak: Atli Freyr nýr yfirþjálfari meistaraflokka Þróttar
Heimamaðurinn Atli Freyr Björnsson verður yfirþjálfari meistaraflokka Þróttar í blaki í vetur en leiktíðin er nýhafin. Eins og fyrri ár eru miklar breytingar á bæði karla- og kvennaliðinu. Atli segir Norðfirðinga vana því og laga sig að aðstæðum.Atli hefur verið viðloðandi blakið hjá Þrótti frá unglingsaldri og fyrir utan að spila gegnt ýmsum störfum, til dæmis þjálfað annan flokk og verið aðstoðarþjálfari karlaliðsins síðasta vetur auk þess að dæma.
„Eins og margir sem þekkja sína íþrótt vel þá hef ég ákveðna hugmyndafræði um hvernig mér þyki best að gera hlutina,“ segir hann.
Atli verður yfirþjálfari liðanna en Sunna Júlía Þórðardóttir verður aðstoðarþjálfari karlaliðsins og Guillermo Reyes Gomez aðstoðarþjálfari kvennaliðsins. Hann annast einnig styrktarþjálfun liðanna. „Ég lagði áherslu á að það væri ekki bara einn maður í brúnni heldur byggjum við til teymi.“
Vilji til að breyta aðeins um stefnu
Atli segir að þessi útkoma hafi verið niðurstaðan úr samræðum sem áttu sér í vor eftir síðustu blakvertíð þegar ljóst var að breytingar yrðu á þjálfun liðanna. Í þeim hafi komið í ljós vilji til að breyta áherslum.
„Við höfum fengið mjög góða þjálfara frá Spáni undanfarin ár en það koma alltaf upp ákveðnir tungumálaörðugleikar þegar hvorki leikmenn né þjálfarar tala saman á sínu móðurmáli. Næstu ár eru margir ungir leikmenn á leið upp í meistaraflokkana og við vildum helst hafa Íslending í brúnni.
Við fengum fjölda umsókna en fannst þær ekki passa við stefnuna. Við ræddum málin fram og til baka og ég var farinn að hafa áhuga á að þjálfa. Endanleg ákvörðun er stjórnar en þarna var vilji hjá öllum aðilum að kýla á þetta.“
Nær allt byrjunarlið kvennaliðsins farið
Eins og svo fyrri ár eru talsverðar breytingar á leikmannahópunum. Þrír spænskir leikmenn eru farnar úr kvennaliðinu en ein, Lucia Martin Carrasco, komin í staðin. Fleiri hafa horfið á braut, stærsta nafnið trúlega Ester Rún Jónsdóttir sem hefur verið lykilmaður síðustu ár.
„Það er lítill hluti byrjunarliðsins sem stendur eftir frá síðustu leiktíð. Í sumar lögðum við áherslu á að halda í reynslumeiri stelpur sem hafa skilað frábæru starf og tókum inn tvær sem hafa spilað með liðinu okkar í 2. deild.
Planið í vetur er að byggja upp nýtt lið. Vonandi gengur það hratt og örugglega þannig þær geti tekið þátt í skemmtilegum leikjum þótt það sé þolinmæðisverk. Síðan eru áformin að gera meira næsta vetur. Undanfarin ár hefur verið frábær starf í yngri flokkunum þannig það eru margar stelpur að koma upp úr þeim. Þannig getum við vonandi haldið úti stórum hópi. Það er okkur mikilvægt að fá erlenda leikmenn en það er alltaf skemmtilegast að byggja upp í kringum heimafólk.“
Tímabilið hefst á morgun á heimaleik við Aftureldingu sem lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra. „Það er gott að byrja á erfiðum leik og sjá hvar liðið er statt. Afturelding og KA hafa verið ráðandi í deildinni síðustu ár. Þetta eru eldri stelpur sem hafa spilað saman lengi. Til dæmis er KA með fimm stelpur úr Þrótti.“
Tveir snúnir heim með Íslandsmeistaratitil
Sveiflurnar eru minni í karlaliðinu. Tveir Spánverjanna frá í fyrra snúa aftur auk þess sem við bætist Raul Asencio, sem á að baki U-22 ára landsleiki með Spáni. Andri Snær Sigurjónsson og Sölvi Páll Sigurpálsson snúa heim eftir að hafa orðið Íslandsmeistarar með KA í vor.
„Það er frábært að fá þá því yfirleitt sendum við frekar fólk til Akureyrar. Það er ekkert að því, við vitum hvers konar félag við erum. Við erum með ung lið, höfum leikmennina í 3-4 ár meðan þeir eru í framhaldsskóla en njótum ekki sama góðs af því þegar þeir springa út. Við erum stolt af öllum okkar leikmönnum sem spila annars staðar og viljum að þeim gangi sem best.“
Karlarnir töpuðu sínum fyrsta leik gegn Vestra um síðustu helgi 1-3. „Á pappírnum er þetta eitt sterkasta karlalið sem við höfum átt en á sama tíma þá verður deildin alltaf öflugri. Þótt við höfum tapað þá var þetta fínn leikur. Vestraliðið var sterkt í fyrra en er enn sterkara núna og við vissum það fyrirfram. Það komu fram atriði í leiknum sem við þurfum að vinna áfram með. Mér fannst við samt spila vel auk þess sem okkur vantaði einn lykilmann.“