Blak: Bæði lið Þróttar töpuðu fyrir norðan

Bæði karla- og kvennalið Þróttar í úrvalsdeildunum blaki töpuðu leikjum sínum í síðustu umferð sem leiknir voru á Norðurlandi.

Karlaliðið fór snemma af stað norður á föstudag til að verða á undan óveðrinu sem átti eftir að loka Möðrudalsöræfum. En þótt þeir væru mættir tímanlega á Akureyri virtust þeir samt ekki vera tilbúnir í leikinn.

KA hafði algjöra yfirburði í fyrstu hrinu og vann hana 25-10, Þróttur eiginlega rétt náði að laga stöðuna í lokin og ná upp í tveggja stafa tölu eftir að hafa verið 23-8 undir.

Hinar tvær hrinurnar voru ekki jafn slæmar. KA vann næstu 25-21 en Þróttur hafði minnkað muninn í 23-21 og þar með skapað sér veikan möguleika. KA vann þá þriðju 25-22. Jafnt var þar á flestum tölum þótt Þróttur kæmist aldrei yfir.

Karlaliðið er í neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig úr níu leikjum.

Kvennaliðið tapaði fyrir Völsungi á Húsavík á miðvikudagskvöld. Fyrstu tvær hrinurnar voru þokkalegar hjá Þrótti, sú fyrsta tapaðist í lokin 25-19 eftir að staðan hafði verið 18-17.

Þróttur byrjaði ágætlega í annarri hrinu en svo fjaraði undan liðinu og Völsungur vann 25-19. Húsavíkurliðið skoraði sex fyrstu stigin í þriðju hrinu og vann hana með yfirburðum, 25-14.

Kvennaliðið er neðst, með 3 stig úr sex leikjum en hefur leikið fæsta leiki í deildinni.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar