Blak: Bæði lið Þróttar unnu leiki sína í krossspili helgarinnar

Karlalið Þróttar vann Vestra 3-0 á laugardag meðan kvennaliðið vann Þrótt Reykjavík 3-1. Leikið var í Neskaupstað í annarri umferð krossspils úrvalsdeildanna en þeim hefur nú verið skipt í tvennt.

Karlaliðið spilar í efri krossi með Vestra, Aftureldingu og Hamri. Það eru fjögur efstu liðin úr deilakeppninni en Þróttur marði fjórða sætið, var með jafnmörg stig og KA en betra hlutfall úr hrinum haustsins.

Fyrsta hrinan á laugardag var jöfn, sex sinnum skiptust liðin á forustunni áður en Þrótti tókst að skora síðustu stigin og vinna 25-23. Þróttur hafði síðan fín tök á annarri hrinu, vann hana 25-21 og yfirburði í þriðju hrinu sem vannst 25-17.

Kvennaliðið spilar í neðri krossi með Völsungi, Þrótti Reykjavík og Álftanesi. Þar sem aðeins eru sjö lið í efstu deild kvenna eru þrjú í í efri krossinum. Þróttur lenti í neðsta sæti deildarkeppninnar.

Þrettán stiga sveifla var í fyrstu hrinu gegn Þrótti Reykjavík á laugardag. Norðfjarðarliðið komst í 17-8 en lenti síðan 18-21 undir. Aftur snéri heimaliðið hrinunni sér í vil og vann 25-22.

Í annarri hrinu var Reykjavíkurliðið skrefinu á undan upp í 22-23 en Þróttur Fjarðabyggð skoraði þá síðustu þrjú stigin. Gestaliðið var mikið betra í þriðju hrinu og vann hana 19-25. Í fjórðu hrinu skoraði Þróttur Fjarðabyggð fyrstu sjö stigin og vann örugglega 25-15 og leikinn þar með 3-1.

Um næstu helgi fer fram úrslitakeppni bikarsins. Karlaliðið spilar þar í undanúrslitin gegn Stál-Úlfi á laugardag.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigríður Þrúður


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.