Blak: Bæði lið Þróttar úr leik

Tímabilinu er lokið hjá meistaraflokksliðum Þróttar í blaki eftir ósigra gegn annars vegar KA, hins vegar HK, fyrstu umferð úrslitakeppni Íslandsmótsins um helgina. Kvennaliðið náði fram oddahrinu í sínum leik.

Karlaliðin mættust á Akureyri á föstudagskvöld. KA byrjaði betur, vann fyrstu hrinu 25-17 eftir að hafa náð góðri forustu upp úr miðri hrinu. Í annarri hrinu átti Þróttur góðan kafla er hann breytti stöðunni úr 15-15 í 16-21 og vann hana síðan 19-25.

Þriðja hrina var mjög jöfn en svo fór að KA rétt marði hana 25-23. Í fjórðu hrinu byrjaði KA betur en Þróttur komst á skrið er liðið skoraði sex stig í röð og komst í 13-14 eftir að hafa 13-8 undir. Þá hrökk allt í baklás aftur, KA komst í 21-16 og kláraði hrinuna 25-23. Akureyrarliðið vann þar með leikinn 3-1 og einvígi liðanna í átta liða úrslitum 2-0.

Miðað við tölfræði leiksins var sóknarleikurinn töluvert sterkari hjá KA út frá stigum skoruðum með smössum. Þrótti gekk hins vegar ágætlega að þvinga fram og nýta sér mistök heimaliðsins. Raul Garcia Asensio og Sölvi Páll Sigurpálsson voru atkvæðamestir Þróttar.

Oddahrina í kvennaleiknum


Kvennalið Þróttar tók á móti HK í öðrum leik liðanna á laugardag. Fyrsta hrinan gaf tóninn fyrir jafnan leik. Í henni var HK 23-24 yfir en Þróttur komst í 25-24 áður en HK skoraði þrjú stig í röð og vann 25-27. Önnur hrinan var einnig jöfn þótt HK ynni hana 22-25.

Næstu tvær hrinur voru ekki jafnar, Þróttur hafði yfirburði í þeim með og lagði grunninn að góðu spili með frábærum uppgjörum. Þriðju hrinuna vann liðið 25-13 og þá aðra 25-19.

Í oddahrinunni komst HK í þriggja stiga forustu, 5-8. Þróttur tók leikhlé og jafnaði eftir það í 8-8. Þá tók HK leikhlé og skoraði næstu þrjú stig. Það bil brúaði Þróttur ekki og HK vann 11-15, leikinn 2-3 og einvígið 2-0.

Stigahæstar hjá Þrótti voru Lucia Martin Carrasco með 22 stig og María Jimenez Gallego með 17.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar