Blak: Bæði liðin töpuðu í Mosfellsbæ

Bæði karla og kvennalið Þróttar í úrvalsdeildunum í blaki töpuðu 3-0 fyrir Aftureldingu að Varmá í Mosfellsbæ um helgina. Gangur leikjanna var að mörgu leyti áþekkur.

Karlaliðið byrjaði ekki vel en vann sig til baka og komst meðal annars yfir, 11-12. Afturelding vann þó fyrstu hrinu 25-21 eftir frekar jafna hrinu.

Þróttur komst aldrei yfir í annarri hrinu en jafnt var um hana miðja áður en Afturelding hrökk aftur í gírinn og vann 25-20. Eftir ágæt byrjun í þriðju hrinu hrökk allt í baklás hjá Þrótti. Afturelding var yfir 24-14 og vann 25-20.

Miðað við tölfræði leiksins gekk sókn Aftureldingar nokkuð betur en Þróttar. Þá er Afturelding með átta stig beint úr uppgjöfum gegn tveimur hjá Þrótti. Raul Asensio var atkvæðamestur Norðfjarðarliðsins.

Karlaliðið er í sjötta sæti deildarinnar með níu stig úr níu leikjum. Liðið á strax aftur leik á miðvikudag þegar KA kemur í heimsókn.

Í kvennaleiknum hafði Afturelding yfirburði í fyrstu hrinu og vann hana 25-14. Önnur hrina var ágæt hjá Þrótti. Nokkrum sinnum var jafnt, meðal annars í 20-20, þótt Norðfjarðarliðið kæmist aldrei yfir. Afturelding vann hrinuna 25-21. Þróttur fór ágætlega af stað í þriðju hrinu áður en Afturelding tók öll völd og vann hana 25-16.

Út frá tölfræðinni er augljóst að sóknarleikur Aftureldingar gekk töluvert betur. Liðið skoraði 42 stig gegn 18 úr smössum. Heiðbrá Björgvinsdóttir var stigahæst hjá Þrótti sem er í sjötta sæti með fjögur stig úr átta leikjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.