Blak: Fullt hús gegn Álftanesi
Kvennalið Þróttar í blaki vann sinn fyrsta sigur á leiktíðinni þegar liðið lagði Álftanes á heimavelli um helgina. Karlaliðið komst í annað sæti Mizunu-deildarinnar með að vinna báða leiki sína gegn Álftanesi.Kvennaliðin mættust á laugardag og vann Þróttur leikinn 3-1 eða 25-21, 14-25, 25-21 og 25-23 í hrinum. Þetta var fyrsti sigur liðsins í vetur og þjálfarinn Raul Rocha sagði liðið loks vera að uppskera laun erfiðisins síns í haust.
„Liðið hefur alltaf æft af miklum krafti en þurft að bíða eftir fyrsta sigrinum. Þetta er ungt lið en mjög öflugt þegar það getur notið þess að spila og berjast eins og það gerir á æfingum.
Liðið hefur gert mikið af mistökum í haust en nú tókst okkur að laga þau flest. Uppgjafirnar voru góðar þannig að hitt liðið átti í vandræðum í með móttökuna sem aftur hjálpaði vörninni okkar,“ segir Raul.
Annað tveggja liða í toppbaráttunni
Karlaliðinu hefur hins vegar gengið öllu betur og er eftir leiki helgarinnar í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir HK en liðin hafa bæði spilað átta leiki. Með sigrunum tveimur um helgina tókst Þrótti að koma sér sex stigum frá Álftanesi sem er nú í þriðja sætinu.
Oddahrinu þurfti til að skilja liðin að í fyrri leiknum í Neskaupstað á laugardag. Þróttur vann fyrstu hrinurnar tvær, 25-21 og 25-20 en Álftanes vann þriðju hrinu, 24-26 eftir nokkra spennu. Gestirnir leiddu hrinuna þar til Þrótti tókst að komast yfir 24-23 en skoruðu þrjú síðustu stigin. Í fjórðu hrinu hafði Þróttur frumkvæðið þar til staðan var 14-13. Þá tók við góður kafli gestanna sem unnu hrinuna 19-25. Þróttur vann hins vegar oddahrinuna 15-10.
„Við byrjuðum leikinn mjög vel en fórum að gera mistök í þriðju hrinu og hættum að pressa í uppgjöfinni. Þar með varð leikurinn þægilegri fyrir Álftanes. Við vorum taugaóstyrkir í fjórðu hrinunni en náðum vopnum okkar og vorum sterkir í oddahrinunni,“ segir Raúl.
Álftanes vann fyrstu hrinuna í seinni leiknum 21-25 en næstu þrjár vann Þróttur 25-20, 25-20 og 25-19 og leikinn þar með 3-1. „Við lærðum af mistökum okkar fyrir sunnudagsleikinn. Við spiluðum ekki mjög vel í fyrstu hrinu en eftir það voru uppgjafirnar hjá okkur mjög góðar og vörnin líka.“
Síðasti leikur karlaliðsins í deildinni á þessu ári verður gegn Vestra um helgina. Með sigri getur Þróttur tyllt sér í toppsætið, að minnsta kosti um stundarsakir, því HK spilar ekki næst fyrr en 18. desember. „Leikirnir um helgina voru erfiðir því Álftanes er með gott lið. Það er stór leikur á Ísafirði um næstu helgi, ef við vinnum hann komumst við á toppinn og þar viljum við enda árið okkar.“
Mynd: Blakdeild Þróttar