Blak: Fullt hús hjá liðum Þróttar um helgina

Kvennalið Þróttar Neskaupstað vann Þrótt Reykjavík tvisvar í oddahrinu þegar liðin mættust í Neskaupstað um helgina. Karlaliðið vann mikilvægan sigur á Álftanesi.

3-0 sigur karlaliðsins var jafnari en úrslitin gefa til kynna því hrinurnar fóru 25-22, 25-23 og 25-20 þar sem Þórarinn Örn Jónsson var stigahæstur Þróttar með 13 stig.

Á miðvikudag hafði karlaliðið tapað fyrir KA 1-3 en á meðan þess er vænst að KA-liðið verði í baráttu um deildarmeistaratitilinn keppa Þróttur og Álftanes um sæti í úrslitakeppninni. Þá vann liðið Fylki síðasta sunnudag og þar með tvo af þremur leikjum sínum í vikunni.

Gott að vinna tvo af þremur leikjum vikunnar

„Þetta er búin að vera ströng vika með þremur leikjum á sjö dögum þannig það hefur verið lítill tími til æfinga og undirbúnings. Við spiluðum mjög vel gegn Fylki sem hvatti strákana áfram.

Við sáum síðan margt jákvætt í leik okkar gegn KA en líka atriði sem við þurfum að bæta, einkum í leikjum þar sem mætast hinar tvær ólíku hliðar blaksins, sú andlega og takíska. Mér finnst ekki slæmt að tapa 1-3 gegn KA, við hefðum getað knúið fram oddahrinuna en leikmennirnir skildu allt eftir á vellinum.

Leikurinn á laugardag hefði því getað verið gildra. Álftanesliðið er ekki jafn sterkt og lið KA, líkara okkar, en okkar lið var orðið þreytt og einhverjir leikmenn aðeins meiddir. Lokatölurnar gefa ekki rétta mynd af jöfnum leik en hópurinn okkar er í framförum og vissi hvernig átti að taka völdin á mikilvægum augnablikum í hverri hrinu.

Við erum með kjarna ungra leikmanna og marga yngri sem eru að vaxa. Að hafa unnið tvo af þremur leikjum og staðið í KA veitir okkur kraft inn í vikuna og undirbúninginn gegn Þrótti Vogum næsta sunnudag,“ sagði Gonzalo Garcia, þjálfari Þróttar eftir leikinn.

Tveir leikir í oddahrinu

Kvennaliðið vann svo sína fyrstu leiki í vetur en þurfti að hafa fyrir því þar sem báðar viðureignirnar við Þrótt Reykjavík um helgina fóru í oddahrinur. Í fyrri leiknum á laugardag skiptust liðin á að vinna hrinur, 21-25, 25-20, 25-18 og 22-25 áður en Norðfjarðarliðið vann oddahrinuna 15-13.

Á sunnudag unnu gestirnir fyrstu tvær hrinurnar, 18-25 og 15-25 en heimaliðið svaraði 25-18, 25-20 og 15-12. Ester Rún Jónsdóttir var stigahæst í fyrri leiknum með 25 stig en Maria Eugina í þeim seinni með 19 stig.

Mikill styrkur að snúa við vondri stöðu

Gonzalo hefur áður lagt á það áherslu að kvennaliðið sé að ganga í gegnum miklar breytingar á þessari leiktíð og því sé áherslan á að þróa leik þess og yngri leikmenn, frekar en reikna með mörgum sigrum. Þá hefur það áhrif að liðið er án tveggja lykilmanna, Amelíu Rúnar Jónsdóttur sem á von á sínu fyrsta barni innan skamms og Heiðu Elísabetar Gunnarsdóttur sem glímir við meiðsli.

„Það er afar áhugavert að skoða leikinn frá á laugardag. Við spiluðum ekki vel í fyrstu hrinunni en næstu þrjár hrinur voru mjög góðar. Því miður tókst okkur ekki að klára leikinn í stöðunni 21-17 í þriðju hrinunni þar sem Þróttur Reykjavík kom til baka og knúði fram oddahrinu.

Hún virtist töpuð í stöðunni 3-9 en leikhléin sem við tókum borguðu sig og okkur tókst að snúa leiknum við. Það var mjög spennandi að sjá baráttuna í liðinu og gleðilegt að sjá einn af ungu leikmönnunum, Randíði Önnu Vigfúsdóttur sem er aðeins 15 ára, klára leikinn beint úr uppgjöf,“ segir Gonzalo.

„Leikurinn á sunnudag var svipaður, skiptist í tvennt. Við náðum ekki að gera það sem við vildum í fyrstu tveimur hrinunum, liðið var ráðvillt og spilaði langt undir getu. Á sama tíma spilaði Reykjavíkurliðið vel og við áttum engin svo við sóknarleik þess.

En frá og með þriðju hrinunni breyttist allt, hópurinn svaraði kallinu, við náðum að snúa leiknum við með að vinna þrjár hrinur í röð og að vinna tvo leiki í röð um helgina verður stelpunum mikil hvatning. Markmið ársins er að hafa gaman af að spila og læra, sem getur verið erfitt í sterkri deild, en við erum á réttri leið.“

Frá leik kvennaliðanna um helgina. Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.