Blak: Fundum alltaf lausnir þegar þurfti – Myndir
Þróttur vann báða leiki sína gegn Stjörnunni í Mizunodeild kvenna í blaki um helgina en liðin mættust í Neskaupstað. Þjálfari Þróttar sagði sigrana hafa byggst á góðri liðsheild og gríðarlegri baráttu.
Þróttur vann fyrri leikinn á laugardag 3-0 eða 25-20, 18-25, 25-21 og 27-25. Stigahæstar voru María Rún Karlsdóttir og Ana Vidal með 13 stig en Norðfirðingurinn Erla Rán Eiríksdóttir var stigahæsta Stjörnustúlkna með 12 stig.
Seinni leiknum lauk líka með öruggum 3-0 sigri Þróttar en jafnt var á mununum í hrinunum sjálfum. Þróttur tók leikhlé þegar staðan var 24-25 fyrir Stjörnunni í fyrstu hrinu og náði skora þrjú stig í röð til að vinna hrinuna.
Í annarri hrinu var Þróttur með yfirburði þar til Erla Rán kom inn á og breyttist staðan úr 10-6 í 12-11. Stjarnan jafnaði í 14-14 eftir að Ana smassaði út af. Þróttur reif sig aftur í gang og vann 25-18.
Mesti viðsnúningurinn var í síðustu hrinunni. Þróttur var á undan upp í 10-10 en þá tók við kafli þar sem Stjarnan skoraði sex stig í röð og móttakan var afleit hjá Þrótti. Það lagaðist, liðið jafnaði í 21-21, komst yfir 23-22 og vann loks 25-23.
Ana Vidal var stigahæst með 20 stig en Stjörnustúlkur reiddu sig á Erlu Rán sem skoraði 22 stykki.
Borja Gonzalez, þjálfari Þróttar, var ánægður eftir helgina. „Við erum ekki með jafn hávaxið eða reynt lið og Stjarnan en okkar styrkur felst í vörninni og baráttunni. Við vorum í vandræðum með sendingarnar en vörðumst vel og þess vegna vorum við alltaf inni í leiknum.
Við finnum alltaf lausnir þegar þess þarf. Gígja (Guðnadóttir) meiddist í fyrri leiknum en Tinna (Rut Þórarinsdóttir) kom inn í staðinn og stóð sig vel. Þegar við þurfum á því að halda eigum við alltaf eitthvað til góða á bekknum.“
Þróttur fer vel af stað því liðið vann KA tvisvar fyrir viku og er því komið með fjóra sigra í fjórum leikjum. „Markmið okkar er að komast í úrslitakeppnina og Stjarnan er eitt af þeim liðum sem keppir við okkur um sæti þar. Þess vegna var þessi sigur virkilega mikilvægur.“