Blak: Hávörn HK gerði gæfumuninn í háspennuleik – Myndir
HK er með vænlega stöðu gegn Þrótti í viðureign liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í blaki eftir 2-3 sigur í Neskaupstað í gær. Þróttur var kominn í vænlega stöðu í oddahrinunni, þrátt fyrir að hafa tapað fyrstu tveimur hrinunum, þegar hávörn HK skellti í lás.HK byrjaði leikinn betur og vann fyrstu hrinuna 21-25. Liðin skiptust á forustunni í henni framan af en það var forsmekkurinn fyrir það sem framundan var í leik sem stóð í tvo og hálfan tíma.
Þróttarliðið fór hægt af stað og var í vandræðum framan af annarri hrinu. HK náði fljótt þriggja stiga forskoti, bæði virkaði hávörn liðsins vel auk þess sem uppgjafir Þróttar voru slakar.
Þróttur jafnaði í 7-7 eftir umdeilt stig þar sem HK liðið var talið hafa farið í netið í vörninni. Kópavogsliðið tók síðan leikhlé í stöðunni 10-8. Í kjölfarið tók liðið sig saman í andlitinu og komst yfir 13-15. Eftir leikhlé Þróttar var mestu göllunum kippt í lag og hrinan varð afar jöfn til loka.
Leikhlésbón HK sló Þrótt út af laginu
Einn vendipunktur var þó eftir. Í stöðunni 24-23 átti Þróttur uppgjöf og gat tryggt sér sigur í hrinunni. bað þjálfari HK um leikhlé. Þróttarar tóku flaut dómarans um leikhlé merki um uppgjöf, sendu boltann yfir, í gólfið þar sem leikmenn HK voru hættir, töldu sig hafa unnið hrinuna og fögnuðu þannig.
Dómararnir töldu HK sannarlega hafa tekið sitt leikhlé og gáfu þeim það. Leikmenn Þróttar mótmæltu ákaft og eyddu í það bæði dýrmætum tíma og orku. Þeir virtust ekki klárir í slaginn þegar leikurinn hófst að nýju, fengu strax á sig tvö stig og töpuðu 25-27.
Þróttur svarar fyrir sig
Þróttarar voru hins vegar með hausinn rétt skrúfaðan á í þriðju hrinu og náðu snemma tveggja stiga forskoti. Í stöðunni 13-12 snérist staðan við þegar Gary House fór í uppgjöf. Hann negldi þremur uppgjöfum beint í gólfið og kom HK yfir.
Þróttur var nokkra stund í gang á ný en komst yfir 18-17. Mikið var leitað að Mateo Castrillo í sókninni, sem aðallega sótti frá vinstri. Í stöðunni 20-18 spilaði Borja hins vegar upp til hægri á Hlöðver Hlöðversson sem smellti boltanum niður og kom Þrótti í fyrsta sinn í þriggja stiga forustu.
Í stöðunni 22-19 var Þrótti dæmt stig á þeim forsendum að boltinn hefði farið í hávörnina og út. Það sá einn dómari þótt aðrir dómarar teldu að boltinn hefðu svifið beint út og höfðu gefið slíkar bendingar. Stigið var því dæmt Þrótti við mikil mótmæli leikmanna HK. Þar sem HK hafði fyrr í leiknum fengið gult spjald fór rauða spjaldið á loft sem þýddi refsistig. Þar með var orðið formsatriði fyrir Þrótt að klára hrinuna, sem liðið gerði, 25-20.
Annað rautt spjald á HK
HK var með undirtökin framan af fjórðu hrinu, Þróttur tók leikhlé í stöðunni 7-11 en það var ekki fyrr eftir annað leikhlé í stöðunni 12-16 sem hjólin fóru að snúast. HK tók leikhlé þegar Þróttur hafði skorað tvö stig í röð en þau áttu eftir að verða fimm og Þróttur komst yfir 17-16.
Í stöðunni 18-16 töldu dómararnir að HK hefði leikið boltanum fjórum sinnum í röð en ekki varið í hávörn. Þrátt fyrir að það langt væri liðið frá dómnum og allir leikmenn á vellinum hættir smassaði House boltanum samt af afli í gólfið. Fyrir það fékk HK annað rautt spjald og eftir dóminn var staðan orðin 19-16.
Á þessum kafla lék Þróttur frábæra vörn auk þess HK var í mesta basli með uppgjafir Mateos en hann gaf alls átta sinnum í röð upp. Að líkindum var slakur leikur Kópavogsliðsins á þessum kafla, óskipulag og einbeitingarleysi í móttöku, uppruni ergelsins. HK átti ágætan lokakafla en Þróttur vann 25-22 eftir frábært smass Mateos.
Hávörnin snéri við oddahrinunni
HK var yfir í oddahrinunni 3-5 en þá komu fimm stig frá Þrótti sem leiddi 8-5 þegar skipt var um vallarhelming og virtist stefna á sigurinn. HK jafnaði í 9-9 en Þróttur komst aftur yfir í 11-9.
Þróttur komst í 14-13 og fékk síðan þrjár sóknir í röð til að klára leikinn. Í þeirri fyrstu var spilað þrisvar í röð upp á Mateo en þriggja manna hávörn HK tókst alltaf að komast fyrir og verja boltann niður.
Í stöðunni 16-16 gerði Mateo sig sekan um mistök og smassaði út af þvert yfir völlinn þrátt fyrir að virðast hafa nægt svæði til að stýra boltanum í autt svæði í gólfinu. HK gaf upp, Þróttur tók á móti og spilaði upp á Mateo. Aftur var hávörn HK mætt til að verjast honum og eftir átök lak boltinn niður með netinu Þróttarmegin og í gólfið.
HK er með 2-0 forustu í einvígi liðanna en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitin. Næsti leikur verður í Kópavogi á sunnudag. Takist Þrótti að vinna þá viðureign heldur rimman ekki áfram fyrr en eftir páska vegna landsleikjahlés.