Blak: Höfðu ekki við toppliðinu

Karlalið Þróttar í blaki tapaði 0-3 heima fyrir toppliði Hamars í úrvalsdeild um síðustu helgi. Liðin mættust í Neskaupstað. Leikurinn var þó jafnari en tölurnar gefa til kynna.

Þróttur var yfir í fyrstu hrinu 16-9 en glutraði því niður og tapaði eftir upphækkun, 24-26.

Næsta hrina var jöfn en Hamar vann hana 22-25. Sunnlendingar voru síðan alltaf með yfirhöndina í þeirri þriðju þótt munurinn væri aldrei verulegur. Þeir unnu hana 19-25.

Stigahæstir í liði Þróttar voru Jaime Monterroso og Andri Snær Sigurjónsson með níu stig hvor.

Lið Hamars er efst í deildinni með fullt hús stiga úr átta leikjum. Þróttur er í fjórða sæti með 13 stig úr sex leikjum. Liðið hefur leikið fæsta leiki í deildinni.

Kvennaliðið lagði Völsung 3-0 fyrir viku á heimavelli. Þróttur hafði yfirburði og vann hrinurnar 25-12, 25-12 og 25-20. Heiða Elísabet Gunnarsdóttir og Paula Miguel de Blaz voru stigahæstar hjá Þrótti, skoruðu 13 stig hvor.

Þróttur er í fimmta sæti deildarinnar með ellefu stig úr 8 leikjum.

Liðin taka bæði á móti HK um helgina og leika tvo leiki.

Mynd: Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar