Blak: Hörkuframmistaða í undanúrslitum bikarsins
Þrótti Neskaupstað mistókst að komast í úrslit bikarkeppni kvenna í blaki þrátt fyrir fína frammistöðu gegn KA í undanúrslitum á laugardag.KA var vissulega líklegra liðið fyrirfram, enda hefur það og Afturelding haft yfirburði í Íslandsmótinu. Þróttur spilaði hins vegar hörkuleik en tapaði að lokum 3-1.
Þróttur var skrefinu á undan í fyrstu hrinu upp í 19-21, þegar KA skoraði fjögur stig í röð og kláraði hrinuna 25-23. KA hafði síðan tökin á annarri hrinu, var yfir 22-15 en hún endaði 25-20.
Í þriðju hrinu leiddi KA upp í 21-20. Þá komst Þróttur yfir 21-22 og kláraði eftir upphækkun 24-26. Heiða Elísabet Gunnarsdóttir átti frábæran leik á þessum kafla og skoraði fjögur stig í röð áður en Ester Rún Jónsdóttir smellti niður því síðasta.
Enn á ný var KA komið í góða stöðu, 20-14, þegar Þróttur tekur sig til og jafnar í 21-21. Aftur áttu Heiða Elísabet mikilvægan sprett, skoraði fjögur stig í röð, þar af þrjú úr uppgjöf. Það dugði ekki til, KA vann hrinuna 25-23.
Liðið varð síðan bikarmeistari eftir 3-2 sigur á Aftureldingu á sunnudag. Fjöldi fyrrum leikmanna austfirsku liðanna tók þátt í þeim leik. Valdis Kapitola Þorvarðardóttir og Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir eru báðar uppaldar hjá Þrótti auk þess sem Paula del Olmo lék með liðnu um tíma. Þá er Heiðbrá Björgvinsdóttir alinn upp í Leikni. Þær voru allar í bikarmeistaraliðinu.
María Rún Karlsdóttir, Tinna Rut Þórarinsdóttir og Velina Apostolova voru hins vegar í liði Aftureldingar. Báðir þjálfararnir, Borja Gonzalez hjá Aftureldingu og Mateo Castillo voru áður hjá Þrótti.
Karlalið Þróttar komst ekki í úrslitakeppni bikarsins. Ragnar Ingi Axelsson og Valgeir Valgeirsson, fyrrum leikmenn Þróttar, urðu bikarmeistarar með Hamri meðan Börkur Marinósson og Sölvi Páll Sigurpálsson og Mateo Castillo voru í silfurliði KA.
Næsta verkefni kvennaliðsins er úrslitakeppni Íslandsmótsins. Það verður þó ekki endanlega ljóst fyrr en um helgina hver mótherjinn verður.
Mynd: Sigga Þrúða