Blak: KA ýtti Þrótti úr fjórða sætinu
KA komst í fjórða sætið í úrvalsdeild karla í blaki með 3-1 sigri á Þrótti þegar liðin mættust á Akureyri um helgina.Ferðalagið norður virðist hafa farið illa í Norðfirðingana, því heimamenn keyrðu yfir þá í fyrstu hrinu og burstuðu hana 25-12.
Heldur bráði af Þrótturum í þeirri annarri, þótt þeir ættu á brattann að sækja framan af. Þeir voru undir 17-13 og 18-16, en snéru taflinu við í 20-23. KA reyndist hins vegar sterkara á endasprettinum og skoraði síðustu fimm stigin.
Í þriðju hrinu var KA yfir 13-10 en Þróttur svaraði með góðum spretti og komst yfir 15-18. Aftur seig KA fram úr, 21-20 en að þessi sinni voru það Þróttarar sem skoruðu síðustu fimm stigin og unnu hrinuna 21-25.
En í fjórða hrinan var álíka vond fyrir Þróttara og sú fyrsta. KA skoraði fyrstu sex stigin og vann síðan 25-12.
Með sigrinum hirti KA fjórða sætið af Þrótti, er með 16 stig úr 11 leikjum. Þróttur á hins vegar tvo leiki til góða, er með 13 stig úr 9 leikjum.
Mynd: Sigga Þrúða