Blak: Karlalið Þróttar tryggði sætið í úrslitakeppninni
Karlalið Þróttar vann um helgina mikilvæga sigra á Aftureldingu í Mizuno-deild karla í blaki því stigin tryggðu sætið í úrslitakeppninni. Kvennaliðið féll hins vegar af toppnum.
„Þetta var markmiðið fyrir veturinn og þess vegna voru þessir sigrar virkilega góðir,“ segir Ana Vidal, þjálfari karlalsiðsins.
Liðin spiluðu tvo leik. Þann fyrri á laugardag vann Þróttur 3-1 eða 25-19, 25-22, 19-25 og 25-22 í hrinum. Sá seinni var í gær og hann vann Þróttur 3-0, 25-13, 25-22 og 26-24. Ana segist ánægð með spilamennsku helgarinnar.
„Við urðum fyrir áfalli strax í fyrstu hrinu þegar Hlöðver (Hlöðversson) meiddist en Bjarki (Benediktsson, sem er nýkominn frá Aftureldingu) kom inn í staðinn og stóð sig vel.
Við höfum stundum treyst á Jorge (Basualdo) og Valgeir (Valgeirsson) sem eru kantsmassararnir okkar en við gátum treyst á fleiri í þessum leikjum.“
Karlaliðið er í þriðja sæti með 28 stig úr 16 leikjum. Eftir sigrana um helgina hefur það slitið sig frá Aftureldingu og KA í næstu sætum. HK er í öðru sæti með sex stiga forskot og á leik til góða á Þrótt en liðin mætast á Norðfirði um næstu helgi. „Við töpuðum fyrir þeim í haust en okkur vantaði þá nokkra lykilmenn.“
Kvennaliðið tapaði hins vegar 1-3 fyrir Aftureldingu á laugardag eða 20-25, 26-24, 17-25 og 17-25. Ana var stigahæst í liðinu með 17 stig.
„Við vorum ánægðar með okkar leik en Afturelding spilaði virkilega vel. Smassararnir hjá þeim voru virkilega sterkir. Þær eru hávaxnar og okkur gekk illa að klára sóknirnar gegn þeim því hávörnin var sterk.
Við vorum á köflum að prófa nýja hluti með nýjum leikmönnum sem stóðu sig vel. Þótt við höfum tapað höfðu stelpurnar gaman af leiknum. Við erum ungt lið sem fer fram með hverjum leik.“
Með sigrinum hirti Afturelding toppsætið. Liðin eru jöfn með 33 stig en Þróttur hefur spilað 16 leik á móti 12 leikjum Aftureldingar. Í þriðja sæti er HK með 28 stig úr 10 leikjum. Framundan er mánaðarfrí hjá Þrótti í deildinni.
Í kvöld tekur Höttur á móti Val í fyrstu deild karla í körfuknattleik í uppgjör toppliðanna. Leikurinn hefst klukkan 20:00.
Mynd: Blakdeild Þróttar.