Blak: Karlaliðið náði í stig gegn Vestra

Karlalið Þróttar náði eitt stig út úr viðureign sinni gegn Vestra um helgina eftir oddahrinu. Kvennaliðið tapaði móti Álftanesi. U-20 ára liðin eru efst í sínum riðli.

Þrátt fyrir að hafa verið í jafn í hrinum voru þær innbyrðis mjög ójafnar. Liðin skiptust á að vinna þær og var staðan yfirleitt þannig að það lið sem að lokum vann hrinuna tók forustuna strax og var með hana örugga til loka.

Hrinurnar fóru: 16-25, 25-18, 14-25 og 25-21. Oddahrinan var ekki undanskilin, Vestri var yfir hana alla og vann 9-15. Þróttur er í fimmta sæti deildarinnar með níu stig.

Bæði karla og kvennalið Þróttar léku í Neskaupstað. Kvennaliðið tók á móti Álftanesi í leik sem tapaðist 1-3.

Þróttur átti ágæta fyrstu hrinu, var yfir 20-18 en tapaði henni niður í lokin 18-25. Það flengdi Álftanes í annarri hrinu, 25-11. Gestirnir unnu þriðju hrinu 21-25 en hún var jöfn þar til í blálokin. Álftanes náði síðan yfirhöndinni þegar leið á fjórðu hrinu og vann hana 22-25.

Samkvæmt leikgreiningu munaði ekki miklu á liðunum í tölfræðinni. Helst er að sjá mun á árangursríkari sóknarleik Álftaness í fjórðu hrinu. Í liði Þróttar var Lucia Martin Carrasco atkvæðamest. Liðið er nú í sjötta sæti deildarinnar með fjögur stig.

U-20 ára lið Þróttar, sem spila í 1. deild, léku bæði gegn KA. Karlaliðið vann 0-3 en kvennaliðið 1-3. Liðin eru efst í sínum riðlum.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigríður Þrúður Þórarinsdóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar