Blak: Karlaliðið úr leik eftir ósigur gegn HK – Myndir
Karlalið Þróttar er úr leik í undanúrslitum Íslandsmóts karla í blaki eftir 0-3 tap fyrir HK á heimavelli í gærkvöldi. Þróttarliðið barðist vel en var alltaf skrefinu á eftir deildarmeisturunum.
HK vann fyrri leikinn á sunnudag 3-0 en Þróttur byrjaði leikinn í gærkvöldi af krafti og komst í 7-2 og 9-4. Þá tók við góður kafli gestanna sem komust yfir 12-13. Þróttur var aftur yfir 16-15 en aftur fjaraði undan leik þeirra og HK byggði upp 18-21 forskot.
Loks fór hávörn Þróttar í gang og í kjölfarið fylgdu fjögur stig í röð. HK vann þá aftur sendingaréttinn og tvær frábærar uppgjafir komu Þrótturum í mikil vandræði. Sú þriðja flaug yfir völlinn en Þrótti tókst ekki að nýta sendingaréttinn, smass var varið í hávörninni og það skilaði sigurstiginu 23-25.
Þróttur byrjaði aftur betur í annarri hrinu en HK vann á og komst í fyrsta sinn yfir 7-8. Ana Vidal þjálfari tók þá leikhlé en það dugaði lítt. Áfram fjaraði undan Þrótti og hún tók aftur leikhlé í stöðunni 13-17. Tvö stig frá HK bættust við áður en Þróttur náði að klóra til baka.
Vandræði Þróttar í hrinunni voru margþætt. Í fyrsta lagi virkaði hávörnin illa þannig að HK-ingar náðu annað hvort að smella boltanum í gólfið hjá Þrótti eða móttaka gekk illa og vandræði í sókninni færðu gestunum ódýr stig. Stundum kom upp misskilningur milli manna þannig að boltinn datt niður í gólfið eða uppspil varð ekki jafn gott og það hefði getað orðið.
Uppgjafirnar voru ekki nógu góðar þannig að sendingarétturinn hélst aldrei lengi og í restina urðu leikmönnum á einföld mistök, til dæmis fékk uppspilarinn Borja Gonzalez tvisvar dæmt á sig tvíslag.
Þróttur náði að klóra í bakkann, minnka muninn í 17-21 en það dugði ekki til. HK vann 20-25.
Þróttur skoraði fyrstu tvö stig þriðju hrinu en við tóku fimm stig í röð frá HK. Vörnin virtist vart til staðar hjá Þrótti en hún lagaðist eftir leikhlé.
Að þessu sinni var sóknarleikurinn betri. Ef vörnin náði móttökunni fylgdi sóknin í kjölfarið. Þróttarar náðu að spila upp fyrir smassarana, unnu smátt og smátt á. Matthías Haraldsson kom þeim yfir með góðu kantsmassi, 11-10.
Hinn smassarinn Valgeir Valgeirsson steig dansspor við Single Ladies meðan gólfið var þurrkað í stöðunni 12-11. Hann átti síðan fast smass í hávörn og aftur fyrir sem kom Þrótti í 13-11.
HK náði aftur að loka á sókn Þróttar og snúa leiknum sér í vil með fimm stigum í röð. Í aðdraganda 16-19 bjargaði Þróttarvörnin tvisvar boltum sem virtust á leið í gólfið og kom yfir netið en boltinn kom jafn harðan til baka og endaði í stigi.
Leikurinn var samt ekki búinn því HK-ingar fóru að klikka á uppgjöfum, þar var var einn sem skaut beint í bak samherja upp við netið. Þróttarar börðust áfram og tvö hörkusmöss frá Valgeiri í röð minnkuðu stöðuna í 22-23 og næsta smass gestanna endaði í langbylgjumastrinu ofan á netinu og staðan var orðin jöfn 23-23.
HK-ingar náðu valdi á leiknum á ný með góðri sókn í gegnum miðjuna og sigurstigið kom eftir að hávörnin varði smass Valgeirs.
Þróttarar börðust vel en HK-menn virtust alltaf eiga eitthvað auka. Sentímetrum hærri í hávörninni, örlítið fastari í smassi, með meiri spuna á boltanum í uppgjöfum.
Leikmenn Þróttar fögnuðu samt góðum vetri, þar sem þeir komust í fyrsta sinn í bikarúrslit, með því að tollera þjálfara sinn í leikslok.
Kvennalið Þróttar tekur á móti HK í öðrum leik liðanna í Neskaupstað klukkan 19:15 í kvöld.