Blak: Keppa áfram um fjórða sætið

Þrótti mistókst að slíta sig frá Aftureldingu í baráttunni um fjórða sætið í Mizuno-deild karla í blaki. Liðin unnu sinn leikinn hvort þegar þau mættust í Neskaupstað um helgina.

Þróttur vann fyrri leikinn á föstudagskvöld 3-1. Þróttur hafði yfirburði í fyrstu tveimur hrinunum, vann þær 25-17 og 25-21.

Afturelding vann þriðju hrinuna 17-25 en Þróttur kláraði þá fjórðu 25-17.

Segja má að seinni leikurinn á laugardag hafi verið spegilmynd af þeim fyrri. Fyrst hrinan var reyndar mjög jöfn en hana vann Afturelding í upphækkun 24-26.

Gestirnir unnu næstu hrinu 13-25 áður en Þróttur svaraði með 25-20 sigri. Það dugði samt ekki til að kveikja í liðinu og Afturelding vann fjórðu hrinuna 15-25 og leikinn þar með 1-3.

Miguel Castrillo var atkvæðamestur Norðfirðinga í leikjunum tveimur, skoraði 37 stig í fyrri leiknum en 31 í þeim seinni, alls 68 stig yfir helgina og er fyrir vikið stigahæsti maður deildarinnar.

Liðin berjast um fjórða sæti deildarinnar sem er það síðasta til að veita þátttökurétt í úrslitakeppninni í vor. Þróttur er í sætinu með 11 stig úr 12 leikjum en Afturelding er í fimmta sæti með níu stig úr 13 leikjum. Liðin hafa nú mæst fjórum sinnum á stuttum tíma og skipt með sér sigrunum.

Úr leiknum á laugardag. Mynd: Jón Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar