Blak: Kvennalið Þróttar í efsta sæti um áramótin - Myndir

Þróttur er í efsta sæti efstu deildar kvenna í blaki eftir 3-0 sigur á Þrótti Reykjavík í Neskaupstað á föstudagskvöld. Þjálfarinn er bjartsýnn á framhaldið hjá ungu liðinu.

Þróttur hafði yfirburði í fyrstu hrinunni og vann hana örugglega, 25-12.

Í annarri hrinu var liðið komið í góða stöðu, 13-7, þegar móttakan brast og gestaliðið komst yfir 14-15. Þróttur tók þá leikhlé og skömmu síðar fór Ana Vidal í uppgjöfina.

Hún skoraði beint úr þremur af næstu fjórum og Heiða Elísabet Gunnarsdóttir skoraði sex sóknarstig þannig að Þróttur vann hrinuna 25-17.

Í þriðju hrinu virtist Þróttur vera með góð tök í stöðunni 13-8. Gestirnir tóku þá leikhlé til að stöðva skriðið en ekki minnkaði munurinn.

Hann varð mestur 22-15 og virtist Þróttur með algjörlega unnin leik í höndunum. Þá hrökk liðið í baklás, sóknarleikurinn sérstaklega, smössin voru annað hvort laus eða lesin af vörn andstæðiganna.

Reykjavíkurliðinu tókst að jafna í 24-24 en tókst Þrótti að spila upp á Önu Vidal sem kláraði leikinn með tveimur smössum.

Hefði viljað klára leikinn fyrr

„Ég var svekktur að klára leikinn ekki fyrr. Ef við gerum mistök og fáum á okkur stig fáum við oft á okkur fleiri stig í kjölfarið. Það er okkar stærsta vandamál nú um stundir. Við erum með ungt lið sem þarf að læra að bregðast við slíkum kringumstæðum,“ sagði Borja Gonzales, þjálfari Þróttar.

Hann var heilt yfir sáttur með leikinn, einkum þar sem í liðið vantaði bæði Hrafnhildi Ástu Njálsdóttur og Önnu Karen Marinósdóttur. Í fjarveru þeirra kom Alexandra Ingvarsdóttir inn á sinn fyrsta leik og önnur ung stúlka, Ester Jónsdóttir, fékk mínútur í lokin.

„Við erum ekki með stóran hóp og því skiptir máli að gefa þeim tækifæri. Ester hefur tekið miklum framförum á stuttum tíma, hún er mjög góður íþróttamaður og ég get vel séð hana fyrir mér í liðinu eftir 2-3 ár.“

Telur Aftureldingu enn besta liðið

Sigurinn þýðir að Þróttur verður í efsta sæti yfir jólin, stigi á undan Aftureldingu þótt Þróttur hafi unnið leik meira en bæði liðin hafa leikið níu leiki. Stjarnan er í þriðja sæti, fimm stigum frá Þrótti en hefur spilað einum leik færra.

„Það er virkilega góð tilfinning að vera í efsta sætinu, ég átti ekki von á því. Bæði Afturelding og Stjarnan hafa tapað óvænt stig en við höfum spilað vel gegn veikari liðunum sem skiptir miklu máli. Leikmennirnir eru árinu eldri en í fyrra og það skiptir miklu máli. Við höfum unnið vel og ég hef miklar trú á þessu liði.“

Borja segir samt að enn sé löng leið að bikurunum sem afhentir verða þegar vorar. „Mér finnst enn mikið bera á milli Aftureldingar og annarra liða. Þær hafa hins vegar verið í vandræðum með sendingarnar. Ef við spilum mjög vel eigum við séns í þær. Það er hægt að hitta á góða daga en erfiðra í langri úrslitakeppni. En hví ekki?“

Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0003 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0008 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0013 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0021 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0023 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0028 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0031 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0033 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0041 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0044 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0051 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0065 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0070 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0083 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0086 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0095 Web
Blak Throttur Throtturr Des17 Kvk 0100 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar