Blak: Kvennalið Þróttar upp um tvö sæti fyrir úrslitakeppnina

Kvennalið Þróttar vann sig upp um tvö sæti í krossspili úrvalsdeildar kvenna fyrir úrslitakeppnina. Þetta var ljóst eftir að Þróttur vann Þrótt Reykjavík 3-2 syðra um helgina.

Norðfjarðarliðið hafði góð tök á fyrstu hrinu og vann hana 17-24. Reykjavíkurliðið hefndi í annarri hrinu og vann hana 25-23.

Austanstúlkur voru komnar í erfiða stöðu í þriðju hrinu, 19-13 en snéri henni sér í vil með frábærum kafla, komust yfir 20-21 og unnu 23-25. Þróttur Reykjavík knúði fram oddahrinu með að vinna jafna hrinu 25-23. Þróttur Fjarðabyggð breytti stöðunni í fjórðu hrinu úr 3-1 í 3-5, sleppti tökunum aldrei eftir það og vann 8-15.

Íslandsmótið í vetur er leikið þannig að fyrst spiluðu öll liðin sjö í deildakeppni, síðan skiptust þau í tvennt, þrjú efstu liðin spiluðu innbyrðis annars vegar, hins vegar þau fjögur neðstu. Er þar talað um efri kross og neðri kross. Samanlögð stig úr þessum tveimur hlutum ráða endanlegri röð þeirra.

Þróttur var í neðsta sætinu að lokinni deildakeppninni, einu stigi á eftir Þrótti Reykjavík og fimm á eftir Álftanesi. Þróttur styrkti sig í janúar og hefur spilað betur eftir áramótin. Í krossinum vann Þróttur hins vegar fjögur stig á nafna sinn úr Reykjavík og sex á Álftanes, sem þýðir að liðið fer upp fyrir þau bæði. Þetta þýðir að Þróttur mætir Völsungi í úrslitakeppninni. Húsavíkurliðið á heimaleikjaréttinn. KA varð deildarmeistari.

Síðustu leikir í karladeildinni eru á mánudag. Þeir munu engu breyta um lokaniðurröðina. Þróttur hefur lokið öllum leikjum sínum. Það endaði í fjórða sæti og mætir KA úr fimmta sætinu í úrslitakeppninni. Þróttur á heimaleikjaréttinn. Þar verður Hamar deildarmeistari.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða


 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.